Innlent

Bíla­plan á bóla­kafi, könnun og fram­bjóðanda mis­boðið

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sindri Sindrason les kvöldfréttir á Stöð 2 í kvöld.
Sindri Sindrason les kvöldfréttir á Stöð 2 í kvöld. Vilhelm

Hraun gleypti bílastæði Bláa lónsins í dag og rann yfir Njarðvíkuræð. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sjáum við magnaðar myndir af gosinu sem hófst skyndilega í gær og verðum í beinni frá gosstöðvum.

Þá mætir Kristín Jónsdóttir eldfjallafræðingur í myndver og fer yfir stöðu gossins og líklega þróun auk þess sem við verðum í beinni frá samhæfingarmiðstöð almannavarna sem nú starfar á neyðarstigi.

Í kvöldfréttum verður einnig kafað í pólitíkina. Við rýnum í glænýja könnun Maskínu og ræðum við stjórnmálafræðing nú þegar einungis níu dagar eru í kosningar. Auk þess heyrum við í skólastjórnendum Verkmenntaskólans á Akureyri sem segjast hafa vísað formanni Miðflokksins á dyr vegna ósæmilegrar framgöngu. Þar krotaði Sigmundur Davíð á myndir af frambjóðendum annars flokks. Við athugum hvað viðkomandi frambjóðanda finnst um það.

Auk þess verðum við í beinni frá Kringlunni þar sem opnunarhóf stendur yfir. Verið er að opna nokkrar verslanir sem urðu illa úti í brunanum í sumar og hafa verið lokaðar síðan. Í Sportpakkanum heyrum við í kvennalandsliðinu í handbolta sem er haldið út á Evrópumót og í Íslandi í dag kynnir Vala Matt sér ódýrar jólaskreytingar og vegglit ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×