Innlent

Auka öryggið á Bland.is vegna svika­hrappa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vefsíðan bland.is er eitt vinsælasta vörutorg landsins þar sem notendur selja alls kyns hluti til annarra notenda.
Vefsíðan bland.is er eitt vinsælasta vörutorg landsins þar sem notendur selja alls kyns hluti til annarra notenda. Skjáskot

Óprúttnir aðilar sendu í síðustu viku skilaboð á notendur Bland.is með þeim það fyrir augum að fá þá til að gefa upp kortaupplýsingar í einkaskilaboðum. Viðbragðsáætlun var virkjuð í kjölfarið og Syndis vinnur nú að allsherjaröryggisúttekt á vefnum.

Í tilkynningu frá Sýn, sem á og rekur vefinn Bland.is, segir að einhverjir notendur hafi fengið fölsk tilboð í vörur sem þeir auglýstu til sölu. Voru þeir hvattir til að smella á hlekk og gefa upp kortaupplýsingar. 

„Við greiningu kom í ljós að óprúttnir aðilar höfðu fundið leið á síðunni til að senda skilaboð til notenda án auðkenningar. Viðbragðsáætlun var í kjölfarið virkjuð, öryggissérfræðingar bland.is og Syndis komu strax að borðinu, greindu vandamálið og hefur verið komið í veg fyrir vandann,“ segir í tilkynningunni.

Nú þurfi allir notendur Bland.is að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og hafi öryggi notenda verið aukið verulega, eins og það er orðað. Nú vinnur Syndis, sem sérhæfir sig í netöryggi, að allsherjaröryggisúttekt á vefnum.

„Það er rétt að taka fram að unnið hafði verið að uppfærslu á auðkenningarleið bland.is í síðustu viku en á fimmtudag var óeðlilegur fjöldi tilkynninga sendur út úr kerfinu og var því ákveðið að loka bland.is tímabundið. Vefurinn var niðri í um 30 mínútur.

Ekki hafa nein staðfest tilvik komið upp um að notendur hafi gefið upp kortaupplýsingar en þeir sem kunna að hafa gert það skulu hafa samband við sinn viðskiptabanka tafarlaust. Við minnum á að Bland.is biður aldrei um greiðslur eða persónulegar upplýsingar notenda sinna í gegnum tölvupóst eða skilaboð,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Vísir er í eigu Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×