Sport

Sir Mo Farah elti uppi þjófa sem stálu símanum hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Mo Farah var aðlaðaður af Elísabetu II Bretadrottningu 2017.
Sir Mo Farah var aðlaðaður af Elísabetu II Bretadrottningu 2017. getty/Stu Forster

Þrátt fyrir að vera hættur að keppa hefur ekki hægst mikið á Sir Mo Farah. Hann sýndi það þegar hann elti uppi þjófa sem tóku símann hans.

Í síðustu viku fór Farah út að hlaupa með eiginkonu sinni, Taniu, í hverfinu þar sem hann býr. Farah skildi símann sinn eftir úti og ætlaði svo að sækja hann þegar hann var búinn að hlaupa. 

Skömmu síðar stökk maður út úr hvítum sendibíl og tók símann hans Farahs. Félagi hans var undir stýri og þeir keyrðu svo í burtu.

Farah var snöggur að bregðast við, tók af stað og elti bílinn á ótrúlegum hraða að sögn sjónarvotts.

Þegar þjófararnir sáu hver var á hælunum á þeim skiluðu þeir símanum og keyrðu í tómhentir í burtu með skottið á milli lappanna.

Farah býr í lokuðu og afgirtu hverfi sem er vaktað allan sólarhringinn. Þrátt fyrir það komust þjófarnir inn á svæðið. Farah ku vera gáttaður á því hvernig það gat gerst.

Farah, sem er 41 árs, vann fern gullverðlaun á Ólympíuleikum á glæstum ferli auk sex gullverðlauna á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×