„Ég klúðraði víti í úrslitaleiknum. Hann fór 1-1, við vorum að spila við HK – Rúrik Gíslason og félaga – þeir voru ófáir leikirnir sem við áttumst við á yngri árum. En það fór 1-1 og af því að þeir skoruðu á undan þá unnu þeir þetta,“ segir Arnóri í samtali við Stöð 2 í viðtali þar sem hann gerði upp ferilinn.
„Ég kyssti boltann og dúndraði honum svo í heimaklett,“ segir Arnór og bætir við: „Það tók svona átta til níu ár að átta sig á þessu,“ segir Arnór léttur en hann gat þó huggað sér við það að hann var valinn besti leikmaður mótsins.

Rígur var milli þeirra á þessum tíma en þeir urðu síðar miklir mátar.
„Það var mikill rígur á milli þessara liða og alveg mikill rígur á milli okkar líka. Rúrik var þessi pretty boy og Appelsín strákurinn. Það var mikil athygli á honum á þessum tíma enda geggjaður í fótbolta.“
Rígurinn var hins vegar lagður til hliðar þegar þeir kynntust betur í landsliðsverkefnum örfáum árum síðar. Rúrik var þá með í för þegar Arnór reyndi fyrir sér hjá Heerenveen í Hollandi. Arnór samdi við Heerenveen í kjölfarið en Rúrik fór hins vegar til Charlton á Englandi.
„Um leið og við kynntumst á Laugarvatni og vorum saman í yngri landsliðunum og förum svo saman til Heerenveen á reynslu með foreldrum okkar seinna meir. Við urðum mjög góðir vinir í framhaldinu en það var tekist á til að byrja með,“ segir Arnór.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan. Þá má hlusta á það á öllum helstu hlaðvarpsveitum í Besta sætinu.