Fótbolti

Glódís Perla lagði upp jöfnunar­markið þegar Bayern tapaði stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliði Glódís Perla reis upp þegar mest á reyndi.
Fyrirliði Glódís Perla reis upp þegar mest á reyndi. Getty Images/Boris Streubel

Þýskalandsmeistarar Bayern München björguðu stigi gegn Freiburg þökk sé stoðsendingu Glódísar Perlu Viggósdóttir í uppbótartíma. Bæjarar voru hársbreidd frá því að tapa í annað sinn í síðustu fjórum leikjum en landsliðsfyrirliðinn steig upp á ögurstundu.

Bayern lenti óvænt 2-0 undir í fyrri hálfleik og var brekkan brött þegar síðari hálfleikur hófst. Hin 17 ára gamla Alara Şehitler minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik en jöfnunarmarkið lét standa á sér.

Það leit loks dagsins ljós þegar komið var í uppbótartíma leiksins. Varamaðurinn Weronika Zawistowska skoraði þá eftir að Glódís Perla skallaði aukaspyrnu sem kom inn á teig fyrir fætur hennar. Staðan orðin 2-2, reyndust það lokatölur leiksins.

Bayern hélt þar með naumlega í toppsætið enda með 20 stig að loknum 9 leikjum á meðan Wolfsburg er með 19 í 2. sæti og leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×