Viðskipti innlent

Aukning í ferða­lögum til landsins

Árni Sæberg skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair flutti 409 þúsund farþega í október, 12 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar af voru 35 prósent á leið til Íslands, 17 prósent frá Íslandi, 42 prósent ferðuðust um Ísland og 6 prósent innan Íslands. Eftirspurn eftir ferðum til Íslands hefur aukist á nýjan leik eftir minni eftirspurn mánuðina á undan.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair um farþegatölur í október. Þar segir að sætanýting hafi verið 84,6 prósent, ein sú hæsta í októbermánuði. Stundvísi hafi verið 84,4 prósent og aukist um 4,2 prósentustig á milli ára. 

Það sem af er ári hafi Icelandair flutt yfir fjórar milljónir farþega, átta prósent fleiri en á sama tíma í fyrra.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá aukningu á ferðalögum til Íslands á ný og enn og aftur hvernig sveigjanleikinn í leiðakerfinu nýtist til þess að leggja áherslu á þá markaði þar sem eftirspurn er mest hverju sinni. Að sama skapi er mikill kraftur í ferðalögum Íslendinga með Icelandair en 11 prósent aukning var á markaðnum frá Íslandi á milli ára,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.

Stundvísi og sætanýting sé áfram góð auk þess sem viðskiptavinir haldi áfram að gefa félaginu háa einkunn í þjónustukönnunum. Sætanýting á Saga Premium hafi verið mjög góð í mánuðinum en varan hafi notið aukinna vinsælda að undanförnu. Leiguflugsstarfsemin hafi gengið mjög vel undanfarið og í október hafi verið sextíu prósent vöxtur í seldum blokktímum á milli ára, auk þess sem aukning hafi verið á tonnkílómetrum í fraktstarfseminni í fyrsta sinn í nokkra mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×