Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í morgun að þessu aukna samstarfi væri ætlað að stuðla að friði, bæði á heimaslóðum þessara ríkja og á heimsvísu, samkvæmt Tass fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins.
Ráðherrann sagði að verið væri að undirbúa samkomulagið og líklega yrði skrifað undir það í náinni framtíð. Fregnir hafa borist af því að Masoud Pezeshkian, forseti Íran, stefni á að ferðast til Rússlands fyrir árslok.
Sjá einnig: Loftvarnir Íran verulega laskaðar eftir árásir helgarinnar
Frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu hafa þeir fengið mikið magn hergagna frá Íran og þá aðallega Shahed-sjálfsprengidróna. Íranar hafa einnig verið sakaðir um að senda skammdrægar skotflaugar til Rússlands, sem hafa verið notaðar í Úkraínu.
Síðasta sumar skrifaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, undir varnarsamkomulag við Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, en samskipti Rússlands við bæði Norður-Kóreu og Íran hafa aukist á undanförnum árum.
Öll ríkin hafa verið beitt umfangsmiklum viðskiptaþvingunum af Vesturlöndum í gegnum árin vegna eldflaugaáætlana og kjarnorkuþróunar og í tilfelli bæði Norður-Kóreu og Íran af Rússlandi einnig.
Kim er sagður hafa sent rúmlega tíu þúsund hermenn til Rússlands en fregnir hafa borist af því að þeim sé ætlað að aðstoða Rússa við innrásina í Úkraínu og við að hrekja úkraínska hermenn frá Kúrsk-héraði í Rússlandi.