Haukar voru í afar vænlegri stöðu eftir níu marka sigur í fyrri leiknum um síðustu helgi, 35-26.
Oft hafa sést miklar sveiflur hjá liðum milli heima- og útileikja en ekkert slíkt gerðist í dag. Finnarnir gerðu sig aldrei líklega til að ógna forskoti Hafnfirðinga og náðu aldrei meira en tveggja marka forskoti.
Munurinn var einmitt tvö mörk í hálfleik, 14-12, en Haukar voru sterkari eftir hlé. Þeir breyttu stöðunni úr 17-15 í 17-19 og litu aldrei um öxl eftir það. Mestur varð munurinn fjögur mörk.
Á endanum munaði tveimur mörkum á liðunum, 27-29, og ellefu marka samanlagður sigur Hauka staðreynd.
Markaskorið dreifðist vel hjá Haukum í dag. Adam Haukur Baumruk, Freyr Aronsson og Birkir Snær Steinsson voru markahæstir með fjögur mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson varði tólf skot (35 prósent) og Vilius Rasimas eitt (sautján prósent).