Blaðamenn ABC News komust yfir listann, sem skrifaður var af æðstu ráðgjöfum Trumps með aðstoð Boris Epshteyn, sem leiðir lögmannateymi forsetans fyrrverandi.
Listinn er ætlaður til undirbúnings fyrir mönnun mögulegrar ríkisstjórnar Trumps. Á honum eru tillögur yfir æðstu lögmenn Hvíta hússins, leiðtoga innan dómsmálaráðuneytisins og æðstu starfsmenn Alríkislögreglunnar og annarra stofnana.
Þegar kemur að mögulegum dómsmálaráðherrum er Cannon í öðru sæti listans á eftir Jay Clayton, fyrrverandi formanni Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna.
Heimildarmenn ABC News segja að nafni Cannon hafi verið bætt við listann nokkru eftir að hún vísaði skjalamálinu frá. Þeir segja einnig að listinn sé til bráðabirgða og sé reglulega uppfærður.
Skjalamálið snýst í stuttu máli um að Trump hafi tekið opinber og leynileg skjöl með sér til Flórída þegar hann flutti úr Hvíta húsinu og neitað að afhenda þau þegar farið var fram á það. Lögum samkvæmt á Trump að afhenda öll opinber gögn til þjóðskjalasafns Bandaríkjanna en hann var þó ekki ákærður fyrir það.
Þess í stað var hann ákærður af Jack Smith, sérstökum saksóknara dómsmálaráðuneytisins, á grunni njósnalaga Bandaríkjanna, vegna þeirra leynilegu skjala sem hann tók og neitaði að afhenda.
Trump og hans fólk hafa ítrekað haldið því fram að hann hafi svipt leynileg skjöl sem hann tók með sér leynd, sem honum var heimilt sem forseta, en þau hafa aldrei getað sýnt fram á það með vísun í lög.
Sjá einnig: Dómarinn í skjalamálinu harðlega gagnrýndur
Eftir að hafa tafið rannsóknina á skjalamálinu og verið harðlega gagnrýnd fyrir framgöngu sína þegar málaferlin hófust, ákvað Cannon í sumar að vísa málinu frá, á fyrsta degi landsfundar Repúblikanaflokksins.
Það gerði hún á þeim grunni að hún taldi Smith ekki rétt skipaðan og gekk ákvörðun hennar í berhögg við fyrri fordæmi varðandi skipanir sérstakra saksóknara. Smith áfrýjaði ákvörðun hennar í ágúst og fer fram á að sú ákvörðun verði felld úr gildi og málið sett í hendur annars dómara.
Hefur ekki sagt frá ókeypis ferðum
Pro Publica sagði frá því í síðasta mánuði að Cannon hefði ítrekað brotið gegn lögum um dómara og að þeir verði að gera grein fyrir opinberum viðburðum sem þeir mæta á. Hún hafi ítrekað farið á námskeið og í ferðalög sem haldin eru af íhaldssömum samtökum og auðjöfrum.
Árin 2021 og 2022 hafi hún verið í viku á hóteli sem kallast Sage Lodge í Montana, á vegum George Mason háskólans, sem hefur lengi verið styrktur af auðjöfrinum Leonard Leo. Sá hefur verið í forsvari fyrir hóp sem kallast Federalist Society en það eru stór og áhrifamikil samtök íhaldssamra lögmanna og hafa þau komið að því að skipa alríks- og hæstaréttardómara undanfarin ár.
Sjá einnig: Fékk ókeypis far í veiðiferð með íhaldssömum auðjöfri
Leo hefur einnig komið að því að skipuleggja ferðir fyrir íhaldssama hæstaréttardómara.
Tilræðismaður vill nýjan dómara
Cannon er einnig með málaferlin gegn Ryan Routh, sem sakaður er um að hafa ætlað sér að ráða Trump af dögum, eftir að hann sást vopnaður riffli bakvið girðingu á golfvelli þar sem Trump var að spila, á sínu borði.
Hann mætti fyrst í dómsal í síðustu viku og fór lögmaður Rouths þá fram á að Cannon segði sig frá málinu. Þá var ekki ljóst að Cannon væri á lista yfir mögulega dómsmálaráðherra Trumps, heldur vísaði lögmaður hennar til þess að ef Trump myndi vinna kosningarnar gæti hann skipað hana til hærra dómsstigs, samkvæmt frétt CNN.
Trump myndi hafa það vald, á sama tíma og hún væri að rétta yfir manni sem sakaður er um að reyna að myrða hann.