Innlent

Þing­flokkarnir funda hver í sínu horni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þingmenn Framsóknar við upphaf fundar klukkan 13.
Þingmenn Framsóknar við upphaf fundar klukkan 13. vísir/Einar Árna

Þingflokkar Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins komu saman til funda hver í sínu horni klukkan 13 í dag. Ráðherrar flokkanna mæta á ríkisstjórnarfund sem boðað hefur verið til klukkan 16 í dag.

Óvissa var uppi hvort fulltrúar Vinstri grænna myndu mæta til fundarins en Svandís Svavarsdóttir formaður VG hefur staðfest mætingu á fundinn við fréttastofu.

Viðbúið er að ráðherrar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins skipti með sér ráðherrastólum Vinstri grænna og sinni nauðsynlegum verkefnum þeirra ráðuneyti þar til tekist hefur að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar.

Ekki hefur enn verið boðað til ríkisráðsfundar með forseta Íslands eins og venja er við ráðherraskipti. Sif Gunnarsdóttir forsetaritari tjáði fréttastofu fyrir hádegi að send yrði út tilkynning ef af slíkum fundi yrði.

Alþingi kemur saman á morgun og verður þing við það tilefni rofið. Boðað hefur verið til kosninga þann 30. nóvember. Flokkarnir þurfa að skila inn framboðslistum í síðasta lagi 31. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×