Aðal- og varamenn í kjördæmaráðum Sjálfstæðisflokksins í Suður-, Norðvestur- og Norðausturkjördæmum hafa verið boðaðir á fundi á sunnudag. Þar stendur til að að þeir greiði atkvæði um efstu sætin á listunum, að sögn Ingvars P. Guðbjörnssonar, upplýsingafulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Kosið verður um sex efstu sætin í Suðurkjördæmi, fimm efstu í Norðausturkjördæmi og fjögur efstu í Norðvesturkjördæmi. Tillaga stjórna kjördæmaráðanna er að raðað verði í önnur sæti á listana þar.
„Svo munu þessi þrjú kjördæmi öll væntanlega afgreiða fullskipaða lista á sunnudag,“ segir Ingvar.
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fundar í kvöld til þess að ræða aðferð við val á framboðslistum í kjördæmunum tveimur þar.
Alþingiskosningar fara fram 30. nóvember eftir að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk leyfi forseta fyrir því að rjúfa þing í gær.