Bandaríska geimvísindastofnunin NASA stefnir á að skjóta Europa Clipper á loft með Falcon Heavy-eldflaug SpaceX frá Kennedy-geimmiðstöðinni á Canevaral-höfða á Flórída klukkan 16:06 að íslenskum tíma í dag. Vefmiðilinn Space.com segir mögulegan skottíma í dag aðeins fimmtán sekúndur en góðar líkur séu á hagstæðu veðri þá. Skotgluggi leiðangursins er til 6. nóvember.
Hægt er að fylgjast með geimskotinu í spilaranum hér fyrir neðan ef af því verður í dag.
Áfangastaður geimfarins er Evrópa, fjórða stærsta tungl Júpíter. Til þess að komast þangað þarf Clipper að ferðast 2,9 milljarða kílómetra langa leið sem hlykkjast um sólkerfið. Það flýgur fram hjá Mars og jörðinni og nýtir sér þyngdarkraft þeirra til þess að slöngva sér áfram út til Júpíters.
Ferðalagið á að taka um fimm og hálft ár. Clipper-geimfarið á að vera komið á braut um gasrisann árið 2030. Þó að önnur geimför sem hafa verið send til og fram hjá Júpíter hafi áður kannað Evrópu er Clipper fyrsta geimfarið sem er sent sérstaklega til að rannsaka ístunglið.
Geimfarið að fljúga 49 sinnum rétt fram hjá tunglinu á þremur árum og mun nær en nokkurt annað geimfar hefur gert. Þegar Clipper verður sem næst Evrópu verður farið í aðeins um tuttugu og fimm kílómetra hæð yfir svellinu á yfirborðinu.

Ein besta vonin um lífvænlegar aðstæður í sólkerfinu
Evrópa hefur lengi fangað ímyndunarafl vísindamanna. Talið er að undir ísskorpunni sé að finna víðáttumikið haf fljótandi saltvatns. Sterkir flóðkraftar Júpíters sem verka á innyfli Evrópu eru taldir mynda nógu mikinn hita til þess að vatn geti verið á fljótandi formi þrátt fyrir annars naprar aðstæður í ytra sólkerfinu.
Fljótandi vatn er talin grundvallarforsenda lífs. Vaxandi þekking manna á lífverum við neðansjávarstrýtur á hafsbotni á jörðinni þar sem sólarljóss nýtur ekki við kveikti þá hugmynd í kolli vísindamanna að á Evrópu gæti líf mögulega hafa kviknað við sambærilegar aðstæður.
„Ef við finnum líf svona langt frá sólinni gæfi það til kynna að það ætti sér annan uppruna en á jörðinni. Það hefur gríðarlega þýðingu því ef það gerðist tvisvar í sólkerfinu okkar gæti það þýtt að líf sé virkilega algengt,“ segir Mark Fox-Powell, reikistjörnuörverufræðingur við Opna háskólann í Bretlandi við breska ríkisútvarpið BBC.

Bonnie Buratti, reikistjörnufræðingur við JPL-tilraunastofu NASA og einn aðalvísindamanna Clipper-leiðangursins, leggur þó áherslu á að markmið geimfarsins sé ekki að leita að lífi heldur lífvænlegum aðstæðum.
„Það eru mjög sterkar vísbendingar um að innihaldsefni lífs séu til staðar á Evrópu en við verðum að fara þangað til þess að komast að því,“ segir Buratti við Reuters-fréttastofuna.
Kannar þykkt skorpunnar og efnasamsetninguna
Clipper er sólarknúið og stærsta geimfar sem NASA hefur nokkru sinni byggt til þess að rannsaka aðra hnetti í sólkerfinu. Farið er rúmlega þrjátíu metra langt, sautján metra breitt og vegur um sex tonn. Þar vega þungt sólarsellurnar sem búa til orku til að knýja níu mælitæki um borð.
Þrjú meginmarkmið Europa Clipper eru að mæla þykkt ísskorpu Evrópu og hvernig hún verkar við hafið undir henni, kanna efnasamsetningu tunglsins og jarðfræði þess.
Talið er að ísskorpan sé á bilinu fimmtán til tuttugu og fimm kílómetra þykk. Hafið fyrir neðan hana er áætlað allt frá sextíu til 150 kílómetra djúpt. Þannig gæti verið allt að tvöfalt meira fljótandi vatn undir yfirborði Evrópu en í öllum höfum jarðar samtals.

Vísbendingar hafa fundist um að frá yfirborði Evrópu gjósi vatnsstrókar. MASPEX-mælitækið um borð í Clipper er ætlað að greina vatnsgufu og gas í nágrenni Evrópu til þess að freista þess að finna lífræn efnasambönd sem gætu verið næring fyrir mögulegt neðansjávarörverulíf.
Einnig vakir fyrir NASA að finna álitlega lendingarstaði á yfirborði Evrópu fyrir frekari könnunarleiðangra þangað í framtíðinni.
Fleiri vatnaveraldir í sólkerfinu
Evrópa er ekki eina vatnaveröldin í sólkerfinu okkar. Talið er að neðanjarðarhöf sé að finna á bæði Ganýmedesi og Kallistó, stærstu tunglum Júpíters. Mun dýpra er talið niður á þau en á Evrópu.
Þá er Enkeladus, ístungl Satúrnusar, þekkt fyrir ísgíga sem þeyta vatnssameindum út í geim, líklega frá neðanjarðarhafi. Einnig er talið mögulegt að slíkt haf sé að finna á Trítoni, stærsta tungli Neptúnusar. Þangað hefur þó ekkert geimfar farið frá því að Voyager 2 flaug fram hjá í ágúst árið 1989 og engin áform eru um frekari ferðir þangað í fyrirsjáanlegri framtíð.