Handbolti

Ómar og Gísli frá­bærir í stór­leiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon fagnar marki gegn Flensburg í dag en hann var markahæstur hjá Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon fagnar marki gegn Flensburg í dag en hann var markahæstur hjá Magdeburg. Getty/Frank Molter

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum fyrir Magdeburg í stórleiknum við Flensburg á útivelli í þýsku 1. Deildinni í handbolta í dag.

Ómar var markahæsti maður Magdeburg í leiknum með tíu mörk, en liðið fagnaði dýrmætum og öflugum 29-27 sigri. Sex af mörkum Ómars komu af vítalínunni þar sem hann var öryggið uppmálað og nýtti öll nema eitt af vítum sínum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var einnig öflugur og skoraði fjögur mörk og átti fimm stoðsendingar, eða flestar allra á vellinum.

Ómar Ingi Magnússon fékk högg á höfuðið í leiknum en það kom ekki í veg fyrir að hann skoraði tíu mörk.Getty/Frank Molter

Magdeburg komst í 17-13 í fyrri hálfleik en Flensburg náði svo að jafna metin og var staðan 23-23 þegar tæplega korter var eftir. Ómar Ingi kom þá Magdeburg yfir af vítalínunni, og svo aftur í 25-24, og eftir það tókst Flensburg ekki að jafna aftur.

Þetta var fyrsta tap Flensburg á leiktíðinni en liðið er með níu stig í 2. sæti. Magdeburg er nú með átta stig og á leik til góða á Flensburg, og á topplið Melsungen sem er með tíu stig.

Arnór stýrði Holstebro til fjórða sigursins

Arnór Atlason stýrði sínum mönnum í TTH Holstebro til sigurs gegn Skjern á útivelli, 23-20, í dönsku úrvalsdeildinni.

Holstebro hefur því unnið fjóra af fyrstu sjö leikjum sínum á tímabilinu og er, alla vega tímabundið, í 3. sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×