Leikurinn var jafn framan af og aðeins eitt mark skildi liðin að, 14-13, þegar flautað var til hálfleiks. Gestirnir tóku forystuna fyrst um sinn í seinni hálfleik en létu fljótt undan og heimamenn brunuðu fram úr.
Kolstad komst mest fimm mörkum yfir en Nærbø minnkaði muninn áður en lokaflautið gall, 30-27 lokaniðurstaðan.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði tvö mörk af vítalínunni og Sveinn Jóhannsson gerði einnig eitt mark. Markmaðurinn Sigurjón Guðmundsson spilaði sautján mínútur og varði þrjú skot. Sigvaldi Guðjónsson var ekki með í leik dagsins.
Kolstad, sem er ríkjandi deildar- og bikarmeistari, hefur titlavörnina vel, liðið er með fullt hús stiga eftir fimm leiki í deildinni og komið áfram í 8-liða úrslit bikarsins, þar sem þeir mæta einmitt Nærbø.
Byrjuðu vel en eru í brekku
Einnig í norsku úrvalsdeildinni var Dagur Gautason í byrjunarliði ØIF Arendal, sem tapaði 25-28 gegn Bækkelaget. Gestirnir leiddu með þremur mörkum frá því um miðjan fyrri hálfleik og hleyptu heimamönnum aldrei nálægt. Dagur skoraði 4 mörk í leiknum.
Arendal byrjaði tímabilið vel, vann fyrstu tvo leikina, en hefur síðan tapað þremur í röð. Liðið situr nú í 9. sæti deildarinnar.