Innlent

Maður stunginn í brjóst­kassann í nótt

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Erilsamt var hjá lögreglu í nótt. Mynd úr safni.
Erilsamt var hjá lögreglu í nótt. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Maður leitaði til bráðamóttöku í nótt eftir að hann hafði verið stunginn í brjóstkassa. Ekki liggur fyrir hvaða vopni var beitt en málið er í rannsókn hjá lögreglu. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu fyrir nóttina en tólf gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Alls voru bókuð 91 mál í kerfum lögreglu frá klukkan fimm í gær og til fimm í morgun og er ljóst að töluverður erill var í umdæminu í nótt.

Til að mynda var maður handtekinn fyrir að hafa í hótunum við fólk með því að ógna því með eggvopni og annar var handtekinn með kylfu í úlpuvasa. 

Sá sem var með kylfuna í fórum sér hafði verið til vandræða fyrir utan skemmtistað í miðbænum og voru dyraverðir komnir með manninn í tök er lögreglu bar að garði. Maðurinn var þá handjárnaður og fannst kylfan við öryggisleit. 

Nóg var um að vera hjá dyravörðum um nóttina en dyraverðir á skemmtistað óskuðu eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs einstaklings sem var til vandræða. Þegar lögregla kom á vettvang fór maðurinn að hóta lögreglumönnum lífláti og var hann í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Enn annað mál kom upp á skemmtistað þar sem gestur neitaði að yfirgefa staðinn þrátt fyrir fyrirmæli dyravarða, hann neitaði reynda síðar einnig að yfirgefa lögreglustöðina.

„Þegar lögreglumenn komu á vettvang neitaði einstaklingurinn að gefa upp hver hann væri og var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Á lögreglustöðinni gaf einstaklingurinn upp hver hann væri og stóð þá til að leyfa honum að fara heim en þá neitaði einstaklingurinn að yfirgefa lögreglustöðina og var að lokum vistaður í fangaklefa,“ segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×