Faðirinn var handtekinn á sunnudagskvöld við Krýsuvíkurveg. Dóttir hans fannst látin skammt frá handtökustaðnum. Hann var á mánudag úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins í næstu viku. Hann var síðast yfirheyrður á miðvikudag og hefur verið samvinnuþýður frá fyrsta degi.
Fyrir helgi óskaði lögreglan eftir myndefni frá vegfarendum sem óku um veginn tímunum áður en maðurinn tilkynnti sig til lögreglu. Í samtali við fréttastofu segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, það vera eðlilegan hluta af rannsókninni. Verið sé að vinna í því að skoða myndefnið sem lögreglu barst.
Rannsókn málsins miðar vel að sögn Elínar. Lögreglan er með góða hugmynd hvar og hvenær stúlkunni var ráðinn bani en Elín gat ekki tjáð sig meira um þann hluta rannsóknarinnar.
Frá því að málið kom fyrst upp hafa margar sögur gengið á milli manna um manndrápið. Lögreglan hefur ítrekað hvatt fólk til að hafa samband við yfirvöld frekar en að deila sögum á netinu. Elín segir að sem stendur bendi ekkert til þess að sakborningum muni fjölga í málinu en faðirinn hélt því fram þegar hann tilkynnti um andlátið að hann hafi sjálfur orðið dóttur sinni að bana.
Samkvæmt Ríkisútvarpinu hefur verið gert bráðabirgðageðmat á föðurnum og hann metinn sakhæfur. Lögreglan hefur þó ekki viljað staðfesta það.