Uppgjörið: Valur - Afturelding 31-34 | Frábær sigur gestanna Hinrik Wöhler skrifar 13. september 2024 21:00 Afturelding sigraði Val með þremur mörkum á Hlíðarenda í Olís-deild karla í kvöld. Vísir/Anton Brink Valur og Afturelding áttust við í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Bæði lið voru án sigurs eftir fyrstu umferðina og voru það Mosfellingar sem sigruðu á Hlíðarenda í kvöld. Eftir jafnan leik endaði leikurinn 34-31 fyrir gestunum. Mosfellingar byrjuðu að krafti og komust í 7-4 í upphafi leiks. Leikurinn var hraður til að byrja með en Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, tók leikhlé eftir aðeins átta mínútna leik og reyndi að tala sína leikmenn til. Afturelding hélt þó áfram að spila skilvirkan sóknarleik og voru gestirnir með fjögurra marka forystu þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Mosfellingar fögnuðu á Hlíðarenda í kvöld.Vísir/Anton Brink Valsmenn náðu að skerpa á leik sínum á endanum og leiddi Bjarni Selvindi sóknarleik liðsins. Þegar leið á fyrri hálfleikinn komst Valur inn í leikinn að nýju og munaði aðeins einu marki á liðunum í hálfleik. Staðan var 16-15 í hálfleik, gestunum í vil, en það voru Færeyingarnir sem voru í aðalhlutverki í sínum liðum. Bjarni Selvindi var kominn með átta mörk í hálfleiknum án þess að klikka á færi og sömuleiðis var landi hans, Hallur Arason, hættulegasti leikmaður Aftureldingar í fyrri hálfleik. Valsmenn héldu uppteknum hætti og voru sterkari aðilinn í upphafi síðari hálfleiks. Á meðan hikstaði sóknarleikur Aftureldingar í bland við klaufaleg mistök. Þrátt fyrir að heimamenn komu sterkari til leiks í síðari hálfleik náðu þeir ekki að mynda nægilegt forskot. Blær Hinriksson, leikmaður Aftureldingar, hrökk í gang í síðari hálfleik og leiddi sóknarleik liðsins. Smátt saman tóku Mosfellingar yfirhöndina á leiknum og á meðan var allur vindur úr Bjarna Selvindi í sókn Vals líkt og öðrum samherjum hans. Á endanum sigruðu Mosfellingar sinn fyrsta leik á tímabilinu með þremur mörkum og það á erfiðum útivelli. Atvik leiksins Viðsnúningur Mosfellinga um miðbik síðari hálfleiks tryggði þeim sigurinn í kvöld. Um kafla leit út fyrir að meðbyrinn væri með heimamönnum en Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var óhræddur við það að leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig á mikilvægum tímapunkti í leiknum. Það útspil virkaði og fara Mosfellingar með tvö stig heim í Mosfellsbæ. Sveinur Olafsson reynir að stöðva landa sinn Bjarna Selvindi.Vísir/Anton Brink Fyrir áhugafólk um færeyskan handknattleik þá var gaman að sjá að það voru fjórir Færeyingar í leikmannahópum liðanna. Allan Norðberg og Bjarni Selvindi léku með Val á meðan að Hallur Arason og Sveinur Olafsson voru á skýrslu hjá Mosfellingum. Stjörnur og skúrkar Blær Hinriksson steig upp á hárréttum tíma og var frábær í liði Aftureldingar en hann skoraði níu mörk í kvöld. Hann skoraði fimm mörk á síðustu 17 mínútum leiksins og dró vagninn þegar mest á reyndi. Blær Hinriksson var fremstur meðal jafningja í kvöld.Vísir/Anton Brink Það var mikill meðbyr með Bjarna Selvindi í fyrri hálfleik en hann skoraði átta mörk úr jafnmörgum tilraunum þegar blásið var til hálfleiks. Hann dró saman seglin í þeim síðari og náði ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik. Varnarleikur Vals var ekki upp á marga fiska og áttu Mosfellingar ekki erfitt með að finna glufur á vörn Valsmanna. Varnarleikurinn gerði Björgvini Páli Gústavssyni erfitt fyrir og náði hann aðeins að verja sex skot í kvöld. Dómarar Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson héldu utan um leikinn á Hlíðarenda í kvöld. Tvíeykið fór tvisvar í skjáinn til að skoða nánar vafaatriði en í bæði skiptin enduðu þeir með að gefa tveggja mínútna brottvísun. Þeir héldu fínni línu gegnum allan leikinn og stóðu sig með ágætum. Stemning og umgjörð Það var ansi góðmennt á vellinum í kvöld en stuðningsmenn liðanna eru greinilega að gíra sig hægt og rólega fyrir handboltatímabilið en vonandi rætist úr mætingunni þegar líður á. Viðtöl Gunnar Magnússon: „Það komu mörk af bekknum“ Það var létt yfir Gunnari Magnússyni, þjálfari Aftureldingar, eftir fyrsta sigur tímabilsins. Liðið tapaði naumlega fyrir Haukum í fyrstu umferð og var Gunnar ánægðari með frammistöðuna í kvöld samanborið við fyrsta leik tímabilsins. „Mjög sáttur, bæði með frammistöðuna og að fá tvö stig. Það er gott að koma í Valsheimilið og tryggja sigur. Það var munurinn frá síðasta leik að það lögðu fleiri í púkkið. Við fengum mörk frá fleirum og löguðum varnarleikinn og heilsteypt frammistaða í kvöld,“ sagði Gunnar eftir leikinn. Gunnar Magnússon var líflegur á bekknum og stýrði sínum mönnum til sigurs.Vísir/Anton Brink „Breiddin hjálpaði okkur, það komu mörk af bekknum og hjálpuðu okkur gegnum kaflana. Við áttum byrjunarliðið úthvílt til að loka þessu. Ævar [Smári Gunnarsson] og Harri [Halldórsson] komu með mörk og allir þessir strákar, það munar rosaleg þessi framlög frá þeim,“ bætti Gunnar við. Skyttan unga, Ævar Smári Gunnarsson, kom öflugur inn í lið Aftureldingar í síðari hálfleik og skoraði fjögur mörk á mikilvægum tímapunkti. Gunnar var mjög sáttur með hans innkomu í leiknum í kvöld. „Frábær mörk og mjög ánægður með hans innkomu. Það skiptir máli að fleiri leggja hönd á plóg í kvöld og breiddin var fín.“ Samkvæmt þjálfara Aftureldingar er vinna framundan þar sem miklar breytingar voru á liðinu fyrir þetta tímabil. „Við erum allavega komnir með tvö stig en hefðum getað vera með fleiri. Það eru rosalegar breytingar hjá okkur, við erum að breyta öllu okkar og margir ungir leikmenn að koma inn og við þurfum smá tíma. Við bættum okkur frá síðasta leik og þurfum að halda áfram að bæta okkur. Ég hef fulla trú á þessum strákum og það er smá vinna framundan,“ sagði Gunnar að lokum. Olís-deild karla Valur Afturelding
Valur og Afturelding áttust við í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Bæði lið voru án sigurs eftir fyrstu umferðina og voru það Mosfellingar sem sigruðu á Hlíðarenda í kvöld. Eftir jafnan leik endaði leikurinn 34-31 fyrir gestunum. Mosfellingar byrjuðu að krafti og komust í 7-4 í upphafi leiks. Leikurinn var hraður til að byrja með en Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, tók leikhlé eftir aðeins átta mínútna leik og reyndi að tala sína leikmenn til. Afturelding hélt þó áfram að spila skilvirkan sóknarleik og voru gestirnir með fjögurra marka forystu þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Mosfellingar fögnuðu á Hlíðarenda í kvöld.Vísir/Anton Brink Valsmenn náðu að skerpa á leik sínum á endanum og leiddi Bjarni Selvindi sóknarleik liðsins. Þegar leið á fyrri hálfleikinn komst Valur inn í leikinn að nýju og munaði aðeins einu marki á liðunum í hálfleik. Staðan var 16-15 í hálfleik, gestunum í vil, en það voru Færeyingarnir sem voru í aðalhlutverki í sínum liðum. Bjarni Selvindi var kominn með átta mörk í hálfleiknum án þess að klikka á færi og sömuleiðis var landi hans, Hallur Arason, hættulegasti leikmaður Aftureldingar í fyrri hálfleik. Valsmenn héldu uppteknum hætti og voru sterkari aðilinn í upphafi síðari hálfleiks. Á meðan hikstaði sóknarleikur Aftureldingar í bland við klaufaleg mistök. Þrátt fyrir að heimamenn komu sterkari til leiks í síðari hálfleik náðu þeir ekki að mynda nægilegt forskot. Blær Hinriksson, leikmaður Aftureldingar, hrökk í gang í síðari hálfleik og leiddi sóknarleik liðsins. Smátt saman tóku Mosfellingar yfirhöndina á leiknum og á meðan var allur vindur úr Bjarna Selvindi í sókn Vals líkt og öðrum samherjum hans. Á endanum sigruðu Mosfellingar sinn fyrsta leik á tímabilinu með þremur mörkum og það á erfiðum útivelli. Atvik leiksins Viðsnúningur Mosfellinga um miðbik síðari hálfleiks tryggði þeim sigurinn í kvöld. Um kafla leit út fyrir að meðbyrinn væri með heimamönnum en Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var óhræddur við það að leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig á mikilvægum tímapunkti í leiknum. Það útspil virkaði og fara Mosfellingar með tvö stig heim í Mosfellsbæ. Sveinur Olafsson reynir að stöðva landa sinn Bjarna Selvindi.Vísir/Anton Brink Fyrir áhugafólk um færeyskan handknattleik þá var gaman að sjá að það voru fjórir Færeyingar í leikmannahópum liðanna. Allan Norðberg og Bjarni Selvindi léku með Val á meðan að Hallur Arason og Sveinur Olafsson voru á skýrslu hjá Mosfellingum. Stjörnur og skúrkar Blær Hinriksson steig upp á hárréttum tíma og var frábær í liði Aftureldingar en hann skoraði níu mörk í kvöld. Hann skoraði fimm mörk á síðustu 17 mínútum leiksins og dró vagninn þegar mest á reyndi. Blær Hinriksson var fremstur meðal jafningja í kvöld.Vísir/Anton Brink Það var mikill meðbyr með Bjarna Selvindi í fyrri hálfleik en hann skoraði átta mörk úr jafnmörgum tilraunum þegar blásið var til hálfleiks. Hann dró saman seglin í þeim síðari og náði ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik. Varnarleikur Vals var ekki upp á marga fiska og áttu Mosfellingar ekki erfitt með að finna glufur á vörn Valsmanna. Varnarleikurinn gerði Björgvini Páli Gústavssyni erfitt fyrir og náði hann aðeins að verja sex skot í kvöld. Dómarar Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson héldu utan um leikinn á Hlíðarenda í kvöld. Tvíeykið fór tvisvar í skjáinn til að skoða nánar vafaatriði en í bæði skiptin enduðu þeir með að gefa tveggja mínútna brottvísun. Þeir héldu fínni línu gegnum allan leikinn og stóðu sig með ágætum. Stemning og umgjörð Það var ansi góðmennt á vellinum í kvöld en stuðningsmenn liðanna eru greinilega að gíra sig hægt og rólega fyrir handboltatímabilið en vonandi rætist úr mætingunni þegar líður á. Viðtöl Gunnar Magnússon: „Það komu mörk af bekknum“ Það var létt yfir Gunnari Magnússyni, þjálfari Aftureldingar, eftir fyrsta sigur tímabilsins. Liðið tapaði naumlega fyrir Haukum í fyrstu umferð og var Gunnar ánægðari með frammistöðuna í kvöld samanborið við fyrsta leik tímabilsins. „Mjög sáttur, bæði með frammistöðuna og að fá tvö stig. Það er gott að koma í Valsheimilið og tryggja sigur. Það var munurinn frá síðasta leik að það lögðu fleiri í púkkið. Við fengum mörk frá fleirum og löguðum varnarleikinn og heilsteypt frammistaða í kvöld,“ sagði Gunnar eftir leikinn. Gunnar Magnússon var líflegur á bekknum og stýrði sínum mönnum til sigurs.Vísir/Anton Brink „Breiddin hjálpaði okkur, það komu mörk af bekknum og hjálpuðu okkur gegnum kaflana. Við áttum byrjunarliðið úthvílt til að loka þessu. Ævar [Smári Gunnarsson] og Harri [Halldórsson] komu með mörk og allir þessir strákar, það munar rosaleg þessi framlög frá þeim,“ bætti Gunnar við. Skyttan unga, Ævar Smári Gunnarsson, kom öflugur inn í lið Aftureldingar í síðari hálfleik og skoraði fjögur mörk á mikilvægum tímapunkti. Gunnar var mjög sáttur með hans innkomu í leiknum í kvöld. „Frábær mörk og mjög ánægður með hans innkomu. Það skiptir máli að fleiri leggja hönd á plóg í kvöld og breiddin var fín.“ Samkvæmt þjálfara Aftureldingar er vinna framundan þar sem miklar breytingar voru á liðinu fyrir þetta tímabil. „Við erum allavega komnir með tvö stig en hefðum getað vera með fleiri. Það eru rosalegar breytingar hjá okkur, við erum að breyta öllu okkar og margir ungir leikmenn að koma inn og við þurfum smá tíma. Við bættum okkur frá síðasta leik og þurfum að halda áfram að bæta okkur. Ég hef fulla trú á þessum strákum og það er smá vinna framundan,“ sagði Gunnar að lokum.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik