„Ég hef ákveðið að víkja yfirmanni flughers Úkraínu úr starfi. Ég er í mikilli þakkarskuld við alla herflugmenn okkar, flugvirkja, alla hermenn og varnarsveitir okkar. Alla þá sem berjast af einurð fyrir Úkraínu til að ná árangri,“ sagði Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu í ávarpi sínu í gærkvöldi.
Þar staðfesti hann brottrekstur Mykola Oleschuk hershöfðingja, yfirmanns flughersins. Selenski fer ekki nánar út í ástæður brottrekstrarins en líklegast þykir að þær megi rekja til þess þegar F-16 herþota brotlenti fyrr í vikunni, með þeim afleiðingum að flugmaður hennar lést. Ýjað hefur verið að því að Rússar hafi skotið flugvélina niður en bandaríski herinn telur ólíklegt að svo sé.
„Hvað varðar orsakir brotlendingarinnar hafa þrjár ástæður verið gerðar opinberar. Mistök flugmanns, tæknileg bilun eða loftvarnarkerfi. Þetta eru þrjár orsakir af kannski tíu sem rannsóknaraðilar skoða,“ segir Anatólíj Khraptsjanskíj, úkraínskur flugsérfræðingur í viðtali við AP-fréttaveituna.
Innan við mánuður er síðan Selenskí tók á móti F-16 flugvélinni, og fleirum til, sem Úkraínuher fékk að gjöf frá bandamönnum í vestri. Herinn hafði þá beðið lengi eftir þeim.
„Ég er viss um að þetta muni ekki breyta þeirri ákvörðun að afhenda fleiri flugvélar því Úkraína þarf að styrkja lofvarnir sínar núna,“ segir Khraptsjanskíj.
Síðasta sólarhringinn hafa bæði Rússar og Úkraínumenn gert mannskæðar árásir á andstæðinginn. Fimm létust í árás Úkraínumanna á rússnesku borgina Belgorod í gærkvöldi og sorgardegi var í dag lýst yfir í úkraínsku borginni Karkív, þar sem sjö fórust í sprengjuárás Rússa í gær. Fjórtán ára stúlka er á meðal látinna. Þá hafa fleiri Úkraínumenn fallið í árásum Rússa í dag.