Í yfirlýsingu frá Eflingu er því haldið fram að lítið sem ekkert hafi miðað í viðræðu félagsins við SFV. Deiluaðilar hafi átt fimm fundi frá því um mitt sumar án þess að nokkuð hafi þokast áfram. Því hafi samninganefnd Eflingar ekki séð sér annan leik á borði en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.
Krafa Eflingar er að farið verði eftir launastefnu sem var samið um við Samtök atvinnulífsins í vor og félagsmenn fái sömu launahækkanir og samið verði um við ríkið.
„Meginkrafa Eflingar í viðræðunum snýr hins vegar að því að finna lausn á undirmönnun og ofurálagi á hjúkrunarheimilum. Samninganefnd Eflingar er reiðubúin að fallast á langtímakjarasamninga verði tekið á þeim vanda með tímasettum, raunhæfum aðgerðum á samningstímanum,“ segir í yfirlýsingunni.