Innlent

Þrír hand­teknir eftir til­raun til að rukka skuld með of­beldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla kom meðal annars að því að vísa gest í burtu af hóteli.
Lögregla kom meðal annars að því að vísa gest í burtu af hóteli. Vísir/Vilhelm

Lögregla var kölluð til í gærkvöldi eða nótt vegna átaka í heimahúsi en í ljós kom að þar höfðu þrír einstaklingar komið að til að rukka skuld með ofbeldi.

Þremenningarnir voru handteknir.

Árásarþoli virtist ekki mikið slasaður en var þó fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann til aðhlynningar.

Lögregla sinnti einnig útkalli eftir að tilkynnt var um að hópslagsmál væru í uppsiglingu við Mjóddina. Þegar lögreglu bar að var hins vegar allt með kyrrum kjörum og nokkrir „að ganga sína leið“.

Tveir voru handteknir eftir afskipti lögreglu af bifreið þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Grunur lék einnig á um að bifreiðin væri stolin.

Þá var tilkynnt um umferðarslys þar sem ökumaður reyndist ölvaður og annað þar sem ekið hafði verið á reiðhjólamann. Sá var ómeiddur.

Lögregla kom einnig til aðstoðar þegar vísa þurfti ölvuðum gesti útaf hóteli.

„Gestur búinn með alla sénsa og eftir að eigur hans voru sóttar inn á herbergi þá gekk hann í burtu,“ segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×