Sveinn Kristján segir það til skoðunar hvort tilkynningin hafi komið erlendis frá en það sé ekki hægt að fullyrða um það að svo stöddu.
„Það er einn af þeim möguleikum sem eru til skoðunar. Það er erfitt að segja til um það núna hvort þetta kom að innan eða utan. Við erum að viða að okkur gögnum og skoða gögn. Netið fer víða og berst víða þannig við erum að skoða hvort tilkynningin hafi mögulega komið að utan.“
Annað sem er til skoðunar er hvort tilkynningin hafi komið úr síma eða tölvu.
„Við eigum eftir að fá endanlega staðfest hvort tilkynningin kom úr síma eða tölvu,“ segir Sveinn Kristján og að lögreglan vinni með fjarskiptafyrirtækjum að því að sækja þessar upplýsingar.
Engin önnur tilkynning borist
Leit var frestað á miðvikudaginn en Sveinn Kristján segir lögreglu hafa eftir það fylgst grannt með mögulegum tilkynningum um týnt fólk. Ekkert hafi borist lögreglu og því leit enn frestað.
„Við höfum ekkert meira fengið um týnt fólk eða einhvern sem ekki hefur skilað sér. Það er allt í þessu sem bendir til þess að um gabb sé að ræða.“
Ekki til að afvegaleiða
Viðurlögin við gabbsímtali eru fjársektir eða um þriggja mánaða fangelsisdómur en fjallað er um það í 120. grein almennra hegningarlaga. Sveinn Kristján afar alvarlegt að kerfið sé misnotað með þessum hætti.
„En maður vill að þetta sé mjög aðgengilegt og auðvelt að óska eftir aðstoð. Það sé ekki of flókið eða of mikið mál.“
Sveinn Kristján segir lögreglu einnig hafa skoðað hvort tilkynningin hafi verið gerð til að afvegaleiða en að ekkert annað hafi gerst á þessum sama tíma sem bendi til þess.
„Maður veit ekki alveg hvað liggur þarna að baki.“