Til að setja hlutina í samhengi, má benda á að almennt teljast líkurnar á því að komast inn í Harvard háskólann, meiri en að fá starf hjá Google.
Enda fjöldi hæfra umsækjenda fyrir hvert auglýst starf ótrúlega mikið.
Eins og gefur að skilja, þýðir þetta ógrynni viðtala við fjölda umsækjenda. Næst er síðan að kalla þá umsækjendur aftur í viðtöl, sem teljast vænlegustu kandídatarnir í starfið.
Fyrir stór og ábyrgðarmikil störf, getur þetta þýtt mörg atvinnuviðtöl. Forstjórinn sjálfur, Sundar Pichai, fór til dæmis í níu atvinnuviðtöl hjá Google áður en hann var ráðinn.
Ráðningaferli í stórt starf getur því tekið marga mánuði. Svo ekki sé talað um vinnuna og álagið sem ferlinu fylgir.
Árið 2016 ákvað Google hins vegar að rýna aðeins betur í málin og velta því fyrir sér hvort það væri mögulega hægt að einfalda vinnuna, minnka álagið, fækka viðtölum og stytta ráðningatímann umtalsvert, án þess að það kæmi niður á val eða ákvörðun um ráðningu.
Til þess að ná þessu, fór Google í gegnum gögn í ráðningum síðustu fimm árin á undan.
Eftir að hafa rýnt í þau gögn, var niðurstaðan sú að það ætti alls ekki að kalla vænlega umsækjendur mjög oft í viðtöl, þótt starfið væri mikið. Því í 90% tilfella, væru fjögur atvinnuviðtöl nóg.
Lykilatriðið væri hins vegar að spyrja réttu spurninganna í viðtölunum, þannig að þau atriði sem mestu skipta, kæmu vel fram í viðtölunum.
Atriðin sem spyrja þarf um samkvæmt Google leiðinni eru þá atriði sem snúa að:
Aðlögunarfærni viðkomandi; hæfasta fólk getur lært hratt og aðlagast vel breytingum
Forystuhæfni: Fólk sem getur stigið inn í leiðtogahlutverkið þegar þess þarf, en hefur líka hæfnina til að stíga til baka úr því þegar það er æskilegt
Samstarfshæfni: Hversu sterkir liðsmenn umsækjendur eru sem viðbót við teymi Google og hversu sterkt fólk er í að vinna með öðrum
Reynsla, þekking: Upplýsingar sem mæta almennum kröfum fyrir tiltekið starf.