Handbolti

„Martraðarbyrjun“ norska lands­liðsins lýst sem fíaskói

Aron Guðmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Vísir/EPA

Ó­hætt er að segja að norska þjóðin sé í hálf­gerðu sjokki eftir fremur ó­vænt tap ríkjandi Evrópu­meistaranna í norska kvenna­lands­liðinu í hand­bolta gegn grönnum sínum frá Sví­þjóð í fyrsta leik liðanna á Ólympíu­leikunum í París. Ís­lendingurinn Þórir Her­geirs­son er þjálfari liðsins en eftir tapið í gær hafa norskir fjöl­miðlar farið ham­förum. Kallað tapið „mar­traðar­byrjun.“

Norska liðið leiddi með tveimur mörkum, 17-15, þegar að liðin gengu inn til búnings­her­bergja í hálf­leik í gær. Mest komst liðið svo í fjögurra marka for­ystu þegar að lið á seinni hálf­leikinn en þegar að um tuttugu mínútur eftir lifðu að leiknum tóku hlutirnir stefnu til hins verra.

Sænska liðið, sem vel að merkja er enginn auk­visi þegar kemur að kvenna­hand­boltanum og býr yfir sterku lands­liði, gekk á lagið. Náði að brúa bilið og að lokum tryggja sér fjögurra marka sigur, 32-28. Frá­bær byrjun fyrir Svíana.

Tapið virðist hafa komið sem al­gjört sjokk fyrir norsku þjóðina og kjarnast það kannski einna helst í frétta­flutningi norsku miðlanna af leiknum.

„Mar­traðar­byrjun fyrir Noreg: Hrun og krísa eftir tap,“ er fyrir­sögnin á frétt VG í Noregi um leikinn en um er að ræða fyrsta sigur Sví­þjóðar á norska kvenna­lands­liðinu í hand­bolta í um sex ár.

TV2 segir leikinn hafa verið „Norskt fía­skó.“ Og fer þar sér­fræðingur miðilsins, Bent Svele yfir stöðuna og frammi­stöðu norska lands­liðsins. Liðið hafi gert mis­tök sem norska lands­liðið eigi ekki að gera.

Dag­bladet segir niður­stöðuna vera „hand­bolta sjokk“ og sér­fræðingur miðilsins, Ole Gustav Gjekstad, segir norska liðið þarna hafa upp­lifað sjald­gæft hrun í leik sínum.

Enn er nóg af leikjum eftir og tæki­færi til staðar fyrir Þóri og hans leik­menn í norska liðinu og slá frá sér. Enginn skyldi úti­loka Evrópu­meistaranna í bar­áttunni um Ólympíugullið.

Norska lands­liðið, sem er í riðli með Dan­mörku, Sví­þjóð, Suður-Kóreu, Þýska­landi og Slóveníu, mætir Dan­mörku í næsta leik sínum á Ólympíu­leikunum á sunnu­daginn kemur. Fjögur efstu lið riðilsins komast á­fram í út­sláttar­keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×