„Reynir var frumkvöðull á sviði landslagsarkitektúrs á Íslandi og hefur haft mikil áhrif á íslenskt borgar- og bæjarlandslag og skipulag sem notið verður um ókomna tíð,” segir í minningarorðum á heimasíðu Félags íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, en Reynir var þar heiðursfélagi.
Reynir var fæddur í Reykjavík þann 7. ágúst 1934. Hann lauk námi við Garðyrkjuskólann á Reykjum árið 1953 og framhaldsnámi frá Det Kongelige Danske Haveselskabs Anlægsgartnerskole árið 1955. Útskrifaðist síðan sem landslagsarkitekt frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn 1961.
Reynir starfaði fyrst í Danmörku að loknu námi en flutti til Íslands 1963, stofnaði fyrst teiknistofu með öðrum en hóf samhliða rekstur teiknistofu í eigin nafni og ruddi braut fyrir lítt mótaða nýja starfsgrein, segir í yfirliti Félags íslenskra landslagsarkitekta.
„Reynir var afkastamikill á ferli sínum og meðal hans þekktustu verka eru skipulag Neðra-Breiðholts og Árbæjarhverfis, umhverfi Reykjalundar, Klambratún, skipulag Fákssvæðis, skrúðgarðar á Húsavík og í Hveragerði, skipulag Laugardals og Elliðaárdals, lóð Þjóðarbókhlöðunnar, græni trefillinn, skipulag á Þingvöllum og snjóflóðavarnir á Siglufirði.”
Reynir bjó í nágrenni við Árbæjarlón og var sérlegur unnandi þess en hann var höfundur bókar um Elliðaárdal. Þá birtist hann nokkrum sinnum í fréttum um álftaparið sem áður varp við lónið. Það má rifja má upp hér:
Reynir var einn stofnenda Félags íslenskra landslagsarkitekta 1978 og fyrsti formaður félagsins. Hann var virkur félagi og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur, söng með Karlakórnum Stefni, stundaði skíðaíþróttina með Val fram eftir aldri og hestamennsku í Fáki um langt árabil. Þá var hann einn af stofnendum íþróttafélagsins Fylkis.
Reynir hlaut fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og ævistarf. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir frumherjastörf við skipulag og mótun umhverfis sama ár og hann var sæmdur heiðursverðlaunum garðyrkjunnar. Þá hafa verk hans unnið til verðlauna á alþjóðavísu.
Reynir var mikill húmóristi eins og birtist í þessari frétt:
Reynir var kvæntur Svanfríði Gunnlaugsdóttur sem lést 2004. Þau eignuðust þrjú börn, Höllu sem starfaði sem bókari, Valdimar skógfræðing og Steinunni garðyrkjufræðing. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin sjö. Eftirlifandi sambýliskona Reynis er Sigríður Jóhannsdóttir tækniteiknari.
Reynir var góður vatnslitamálari og bætti í þá iðju eftir starfslok. Hann hélt sýningu á Siglufirði 2019 þar sem viðfangsefnið var snjóflóðavarnargarðar þar í bæ og árið 2021 hélt hann sýningu í bókasafni Árbæjar undir heitinu Árbæjarlónið sem var.
Í sýningunni fólust mótmæli gegn þeirri ákvörðun borgaryfirvalda og Orkuveitu Reykjavíkur að láta tæma lónið, en skoðun sinni lýsti hann einnig í þessari frétt: