Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar ræddi við fréttamann í Kvöldfréttum. Hann segir vel hafa gengið að koma mannskapnum út úr bænum.
„Það er búin að vera mikil og þétt umferð í dag, byrjaði reyndar í gær. Ég hef það á tilfinningunni að mikið af íbúum á höfuðborgarsvæðinu er byrjað í sumarfríi og er að nýta þessa fyrstu daga til að fara út úr bænum.“
Árni segir allar helgar í júlí orðnar stórar ferðahelgar. Umferð úr bænum aukist þegar veðurspá er betri annars staðar.
Ertu með tilmæli til ökumanna?
Já, það er alltaf svipað. Að taka öllu með ró og njóta þess að ferðast um landið í góðu veðri og koma heil heim. Svo viljum við hjá lögreglunni ítreka það að áfengi og akstur fara aldrei saman.