Það var um hálfellefuleytið á föstudagskvöldið sem vinahjón voru í göngutúr á göngustíg við Lund í Kópavogi. Hjónin eru á sextugsaldri.
Samkvæmt heimildum fréttastofu kom karlmaður á þrítugsaldri eftir göngustígnum á rafhlaupahjóli. Ekki vildi betur til en svo að karlmaðurinn ók hjóli sínu utan annan eiginmanninn sem missti jafnvægið við höggið. Til orðaskaks kom á milli mannsins og vinahjónanna sem voru ekki sátt við ógætilegan akstur mannsins á göngustígnum. Maðurinn tók athugasemdum fólksins illa, tók upp hníf og var ógnandi.
Annar eiginmaðurinn er læknir og slasaðist alvarlega í átökum við hnífamanninn. Hlaut hann stungusár bæði í háls og maga. Vinur hans náði samkvæmt heimildum fréttastofu að hafa hnífamanninn undir. Sá fékk sár á hendi í átökunum.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild á höfuðborgarsvæðinu, segir atburðarásina enn óljósa. Skýrslutökur séu fram undan yfir árásarmanninum og karlmönnunum tveimur sem slösuðust.
Hnífamaðurinn verður í gæsluvarðhaldi til föstudags.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is.
Fréttin hefur verið uppfærð.