Byggingarvinnu við myndarlegt Parísarhjól á Miðbakka í Reykjavíkurhöfn lauk síðdegis í dag, og hjólið er nú opið almenningi. Fyrsta ferð var farin í dag um þrjúleytið, þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri vígði hjólið ásamt fréttamanni Stöðvar 2.
Reykjavíkurhöfn auglýsti í mars eftir samstarfsaðila til að reka parísarhjól á Miðbakka. Fyrirtækið Taylors Tivoli Iceland hljóp til og verður rekstraraðili hjólsins. Parísarhjólið er tilraunaverkefni til eins árs og verður uppi í sumar.
Sjáðu fyrstu ferðina í nýja parísarhjólinu við Reykjavíkurhöfn:
Hjólið er hugsað sem spennandi viðbót við fjölbreytt borgarlíf og skemmtilegt framhald á mikilli uppbyggingu í miðborginni. Einar segir að framtíð parísarhjólsins ráðist meðal annars af aðsókninni í sumar. „Ef þetta ber sig væri dáldið gaman að vera með þetta um jólin, þá væri þetta svona parísarjól,“ sagði Einar.