Innlent

Lág­vaxinn, grjót­harður nagli og alltaf hress

Jakob Bjarnar skrifar
Skúli Óskarsson er einhver merkilegasti og um leið skemmtilegasti íþróttamaður sem Ísland hefur átt.
Skúli Óskarsson er einhver merkilegasti og um leið skemmtilegasti íþróttamaður sem Ísland hefur átt. kraft

Skúli Óskarsson kraftlyftingamaður er fallinn frá. Ekki er víst að yngri kynslóðin geri sér fulla grein fyrir því hvers kyns stórstjarna Skúli var á sínum tíma og átti hvert bein í þjóðinni. Hann lét sannarlega til sín taka, svo mjög að Laddi samdi um hann lag sem naut talsverðra vinsælda.

Eins og Vísir greindi frá í gær dó Skúli á sunnudaginn á hjartadeild Landspítalans. Hann var 75 ára að aldri. Skúli var Fáskrúðsfirðingur að ætt og uppruna. Hann hóf að æfa lyftingar seint á sjöunda áratugnum og keppti í sínu fyrsta móti 1970. Og þá fóru Íslandsmetin að fjúka.

Á Facebook minnast þeir sem komnir eru til vits og ára Skúla og segja af kynnum sínum af honum. Einn þeirra er Ásþór Ragnarsson sem segir af því þegar blásið var til sérstaks hátíðarmóts í olympískum lyftingum í Reykjavík.

Gríðarlegt keppnisskap

Lyftingar höfðu þá verið stundaðar í gamla Ármannsheimilinu um nokkurra ára skeið. En heyrst hafði af sveitamönnum sem stunduðu lyftingar bæði á Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum en enginn litið augum. Ásþór segir einn þeirra Skúla Óskarsson sem keppti í 60 kílóa flokki, þeim hinum sama og Ásþór gerði þá 18 ára að aldri.

„Keppnin hófst á keppni í pressu, (grein sem seinna var afnumin.) „Sveitamaðurinn“ Skúli og undirritaður lyftu báðir sömu þyngd 60 kg. Næsta lyfta var snörun þar sem Skúli lyfti 2,5 kg meira en undirritaður. Síðasta lyftan var jafnhending þar sem Skúli lyfti 90 kg á móti 80 kg undirritaðs. Borgarbúinn gekk því sneyptur frá palli. Þetta átti svo eftir að snúast við á Reykjavíkurmótinu í desember sama ár þar sem Skúli keppti sem gestur.“

Á 8. og 9. áratugnum var Skúli reglulegur gestur í fjölmiðlum og gjarnan til viðtals. Hér er það Skinfaxi sem ræðir við kappann 1.12.1980.skjáskot tímarit.is

Þetta munu hafa verið fyrstu mótin sem Skúli keppti í olympískum lyftingum en hann sneri sér skömmu síðar að kraftlyftinginum.

„Ég held að ég hafi aldrei hitt íþróttamann sem hafði jafn mikið keppnisskap og Skúli Óskarsson. Þegar hann svo flutti á mölina æfðum við á sama stað um tíma. Hann tók æfingarnar mjög alvarlega og hver lyfta var eins og hann væri í úrslitum á heimsmeistaramóti, sem reyndar varð reyndin nokkrum sinnum síðar meir. Skúli var afskaplega glaðlyndur maður, síbrosandi og smitaði út frá sér jákvæðni og hvatningu jafnt á æfingum sem í keppni.“

Skúli tryggir sér sess í sögunni

Skúli keppti í sínu fyrsta móti 1970 og setti næstu árin hvert Íslands­metið á fætur öðru. Í tilkynningu frá ÍSÍ, þar sem greint er frá andláti Skúla, kemur fram að hann hafi keppt í alþjóð­legum lyft­inga­mótum og náð silfri í létt­vigt­ar­flokki á heims­meist­ara­mót­inu árið 1978 í Turku í Finn­landi. Það ár var hann kjörinn Íþrótta­maður árs­ins, fyrstur allra lyft­inga­manna. Þannig má segja að hann hafi komið íþróttagreininni á kortið.

Það var svo 1980 að Skúli setti heims­met í rétt­stöðu­lyftu þeg­ar hann lyfti 315,15 kg í 75 kg flokki og um leið tryggði hann sér ævarandi sess í kraftlyftingasögunni. Hann var kjör­inn Íþróttamaður árs­ins í annað skipti. Skúli vann að auki tvö brons­verð­laun á HM, þrjá Norð­ur­landa­meist­aratitla og fjöl­marga titla inn­an­lands.

„Skúli var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á hófi Íþróttamanns ársins þann 28. desember árið 2017, sá 17. í röðinni til að hljóta útnefningu í höllina góðu.“

Í tilkynningu ÍSÍ er þess getið að Skúli hafi verið líflegur og skemmtilegur karakter, hnyttinn í tilsvörum. Og stundum of hnyttinn.

Fólk getur sagt hroðalega hluti á netinu

Blaðamaðurinn Kristinn H. Guðnason tók ítarlegt viðtal við Skúla 2018 en hann hafði þá nýverið verið tekinn inn í heiðurshöllina. Kristinn segir Skúla með þekktustu mönnum landsins, ekki aðeins fyrir fítonskraftinn heldur einnig litríkan persónuleika en þá æfði hann daglega í Salalauginni í Kópavogi þar sem þeir ræddu saman.

Í viðtalinu kemur fram að hann hafi verið tvíburi og agnarsmár strax frá fæðingu. Skúli hefur sínar skýringar á því. „Ég fæddist fjórar merkur en hann þrettán. Þetta var vegna þess að ég lá bak við fylgjuna, hélt í tána á Sigurþóri – hlýtur að vera, og dróst með. Hann át allt frá mér.“

Fram kemur að honum hafi verið strítt í skóla, skólagöngunni hafi lokið eftir barnaskóla og hann sendur í sveit, vinnumaður á bænum Litlu Breiðuvík við Reyðarfjörð meðan Sigurþór bróðir hans fór á sjóinn. Í viðtalinu er farið vítt og breytt um völl, meðal annars eru umdeild ummæli Skúla rifjuð upp en þau lét hann falla þegar hann var tekinn inn í heiðurshöllina. Þar viðraði hann þá skoðun sína að fatlaðir íþróttamenn ættu ekki að vera í kjöri og allt varð brjálað.

„Ég gerði skissu að koma ekki með neinar röksemdir fyrir þessu í ræðunni. Fatlaðir hafa aldrei unnið titilinn þrátt fyrir frábæran árangur og það gerði mig reiðan. Þeir setja heimsmet og vinna titla í sínum flokkum. En það eru til svo margir fötlunarflokkar að ógerningur er að dæma um hver sé bestur. Því ættu þeir að hafa sín eigin verðlaun.“

Skúli tekinn inn í heiðurshöllina.ísí

Skúli segir Kristni að fyrir þetta hafi hann fengið á baukinn, meðal annars frá nokkrum fötluðum íþróttamönnum. „Einn þeirra sagðist hafa misst álit á mér. Annar að ég ætti ekki að fara upp í ræðupúlt heldur halda mig við lóðin. Mér var sagt að biðja fatlað fólk afsökunar en ég ætla ekkert að gera það. Ég var ekki að gera lítið úr fötluðu fólki og ég meinti þetta vel. Sjálfur er ég orðinn fatlaður. Ég vil ekki eignast neinn óvin en held að ég hafi nú eignast nokkra.“

Skúli taldi töluverða skoðanakúgun ríkjandi á Íslandi, enginn megi segja neitt þá sé sá tekinn í nefið. „Fólk getur látið út úr sér alveg hroðalega hluti á netinu.“

Hemmi Gunn plataði hann til að setja heimsmet

En fyrst og síðast er Skúla þó minnst sem einstaklega velviljuðum, jákvæðum og skemmtilegum karakter. Jón Svavarsson er einn fjölmargra sem minnist hans á Facebook-síðu sinni.

„Enn einn ljúflingurinn er fallinn frá,“ segir Jón sem fékk tækifæri á að kynnast Skúla í Smáraskóla. „Þar var ég í foreldrahlutverki og í foreldraráði skólans, börnin dáðu hann og dýrkuðu. Leiðir okkar hafa legið saman árlega á samkomu sem kölluð er íþróttamaður ársins og fór alltaf vel á með okkur.“

Og Ólafur Stefánsson minnist tengdaföður síns. „Hann var svo einstakur, jákvæður og skemmtilegur maður. Hans minning mun lifa hjá öllum sem voru svo lánsamir að fá að kynnast honum. Hann var ekki aðeins frumkvöðull og fyrirmynd í íþróttum á Íslandi, hann var fyrirmynd sem manneskja hjá okkur sem elskuðu hann og þekktu,“ segir Ólafur.

Flosi Þorgeirsson segir að nú sé ein hetja æsku hans fallin frá en hann minnist Skúla sérstaklega sem góðhjartaðs manns.

Hallgrímur Indriðason fréttamaður er svo enn einn sem minnist Skúla og þess að nú séu hátt í 30 ár síðan hann og Jón Heiðar Ragnheiðarsson gerðu útvarpsþætti um um íþróttamenn ársins og tæp 20 síðan hluti þeirrar vinnu varð að bók.

„Skúli Óskarsson var einn eftirminnilegasti viðmælandinn í þessum þáttum og er þá á engan hallað. Mig rámaði í að hafa horft á hann gargandi með stöngina í sjónvarpinu sem krakki þó ég muni ekki sérstaklega eftir heimsmetinu. Hann lýsti því frábærlega hvernig Hemmi Gunn hefði hálfpartinn platað það upp úr honum í viðtali að hann ætlaði að setja heimsmet, og hann varð þá bara að standa við það - og gerði það með stæl. En hann lagði mikla áherslu á að hafa gaman sjálfur, og senda það til áhorfenda. „Maður á að hafa gaman að þessu. Það er það sem gengur,“ sagði hann og erfitt að mótmæla því.“

Hallgrímur nefnir að eftirminnilegustu ummælin hafi þó Magnús Ver Magnússon átt en hann sagði að Skúli hefði sennilega farið í aflraunir ef hann hefði verið svona 30 sentímetrum hærri.

Á áttunda og níunda áratugnum gátu menn ekki svo glatt lifað af því að vera í sportinu einu saman. Bragi Skaftason segir að Skúli hafi verið vinur sinn þegar hann sjálfur var lítill kall.

„Hann vann í Hagkaup Skeifunni í kringum 1980 til ca 87 og alltaf þegar ég kíkti í heimsókn til ömmu minnar varð hann svo glaður og vippaði mér upp á axlirnar sínar og var sá kátasti. Ef ég man rétt ýtti hann mér svo upp á svið í Hagkaupum fyrir annaðhvort páska eða jól, man ekki- nammitengt, þar sem Ómar Ragnarsson var með spurningakeppni sem undirritaður rúllaði upp og vann vandræðalega stóra körfu fulla af nammi frá Freyju.“

Bragi minnist orða sem koma fram í lagi Ladda, að hann hafi verið látinn sofa í skókassa fyrst um sinn. „Skókassi sagði Laddi en karakterinn er stærri en stærstu skóbúðir! Hef ekkert hitt hann síðan eg var barn en hann er ljóslifandi persóna í sinfóníu Íslandssögunnar.“

Og Laddi samdi og söng eftirminnilega um Skúla og fékk hann meira að segja í stúdíóið til að tala inn á lagið.

Fjólublár í framan af ofurmannlegum átökum

Afrek Skúla að viðbættu dálæti helstu skemmtikrafta þjóðarinnar, Hemma Gunn, Ladda og Ómars Ragnarssonar, á honum tryggðu að Skúli var tíður gestur í spjallþáttum. Og eins og vill verða var hann vitaskuld fenginn í auglýsingar eins og þá tíðkaðist og tíðkast líklega enn. 

Geir Þórðarson birti 12. apríl 2020, í Facebook-hópnum Gamlar myndir, mynd af Skúla þar sem hann auglýstir Tropicana ávaxtasafa. „Hann setti heimsmet í réttstöðulyftu í sama mánuði og myndin er tekin, slasaður á öxl,“ segir Geir.

Þorvaldur Gunnarsson birtir aðra mynd á sama vettvangi: „Skúli var þekktur fyrir afrek sín en ekki síður fyrir hnyttin tilsvör og líflega framkomu. Mynd: Bj.Bj. Dagblaðið.“

Þannig flæktist Skúli með annan fótinn inn í skemmtanabransann og þar er eitt og annað tekið fyrir. Guðmundur Helgason segist muna eftir Sumargleðinni á Selfossi haustið 1981. „Það var ekki ball heldur bara skemmtun á sunnudagssíðdegi í íþróttahúsinu. Þar kom Skúli fram og tók að mig minnir 320 kg í réttstöðulyftu, sló þar með eigið heimsmet, sem að sjálfsögðu fékkst ekki viðurkennt. Mér er sérstaklega minnisstætt hvernig hann varð gjörsamlega fjólublár að framanverðu af þessum ofurmannlegu átökum.“

Þessi smávaxni stáljaxl talaði með öllum líkamanum

Atli Steinn Guðmundsson blaðamaður hleður svo í feitan pistil þar sem hann minnist þessa einstaka íþróttamans og mesta frásagnarmeistara sem hann hefur kynnst um ævina. Atli Steinn starfaði með Skúla í 1996, hann þá sem öryggisvörður hjá Securitas og var þann vetur á næturvöktum í lagerhúsnæði Baugs við Suðurhraun í Garðabæ.

„Þar var Skúli við ræstingar hluta nætur og tókst með okkur góður kunningsskapur auk þess sem ég fékk að njóta einstakra sögustunda Skúla úr kraftlyftingaheiminum þar sem þessi smávaxni stáljarl talaði með öllum líkamanum en var þó samtímis því í lófa lagið að skófla í sig óheyrilegu magni af niðurbútuðum ávöxtum og skyri sem hann hafði með sér í stórum döllum.“

Dagblaðið Vísir fjallaði 26.11.1981 um lyfjaskandal í Indlandi, þar sem Skúli og Jón Páll Sigmarsson voru meðal keppenda. Skúli þurfti engin efni til að rífa upp þyngdirnar.skjáskot tímarit

Og Atla skortir ekki orð um þennan eftirminnilega mann:

„Slíkt var minni Skúla að sjaldan var komið að tómum kofunum þegar þessi heillandi Fáskrúðsfirðingur rakti atburðarás kraftlyftingamóta, á Íslandi sem erlendis, með slíku innsæi að manni þótti maður vera á staðnum. Glöggt man ég eftir því þegar Skúli var sestur upp á skúringavélina en hélt þó sagnfræðinni áfram. Hann var ekki hávaxinn, enda margur knár þótt hann sé smár, heldur betur, og brá því á það ráð að setja kókkassa í sætið og sitja á honum. 

Ók hann svo í hringi um lagersalinn á kókkassanum og glumdu hláturrokurnar um gímald stálgrindarhússins líkt og Laxness lýsti því er séra Snorri á Húsafelli fór með Illuga rímur gríðarfóstra fyrir Jón Hreggviðsson svo undir tók í skarsúðinni.“

Atli segir að Skúli hafi jafnan beðið sig um að stimpla hann út og síðan sitji kennitala Skúla í sér, hófst á 030948.“

Þannig segir Atli Steinn frá því. En Skúli lætur eftir sig eiginkonu, dóttur, tvær stjúpdætur og átta barnabörn. Minningin um einstakan mann lifir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×