Í tilkynningu frá lögreglu segir að banaslysið hafi orðið á Vesturlandsvegi skammt frá Hraunsnefi í Norðurárdal í Borgarfirði á níunda tímanum í gær. Ökumaður fólksbíls lést eftir árekstur við jeppa sem kom úr gagnstæðri átt en flytja þurfti bæði ökumann og farþega jeppans með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Landspítala. Tildrög slyssins eru til rannsóknar.
„Það hafa hræðilega margir látist í umferðinni það sem af er ári og við viljum að sjálfsögðu ekki sjá þessa þróun halda áfram. Árið byrjaði illa og hefur ekki farið batnandi,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Ellefu banaslys hafa nú orðið það sem af er ári.
„Við erum í rauninni að horfa á afturhvarf sirka fimm ár aftur í tímann, þá vorum við með tveggja stafa tölu yfir látna í umferðinni á hverju ári í nokkur ár en þetta höfum við ekki séð síðan 2018. Við höfum bara verulegar áhyggjur af stöðunni og teljum að þurfi að skoða sérstaklega með hvaða hætti við getum brugðist við.“
Þórhildur segir áskoranirnar í umferðinni mun fjölbreyttari en áður.
„Það er að sjálfsögðu þessi tækni, farsímanotkunin. Ferðafólki hefur fjölgað gríðarlega og það eru miklu fleiri á ferðinni úti á vegum, það er annað, og svo eru það fjölbreyttari ferðamátar og allt kallar þetta á enn meiri aðgát.“
Heildarfjöldi banaslysa var 18 árið 2018, en á bilinu sex til níu frá 2020-2022. Þá létust átta í umferðinni í fyrra.
„Í dag er 10. júní og við vitum að ellefu manneskjur hafa látið lífið í umferðinni á Íslandi. Við viljum stöðva þessa þróun.“