Heilbrigðisstofnun Suðurlands stóð fyrir ráðstefnu í vikunni á Hótel Selfossi, sem bara yfirskriftina „Tölum saman um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum“. Nokkur erindi voru haldin og fyrirspurnum svarað. Ráðstefnan tókst einstaklega vel en nú er verið að innleiða á landsvísu innan heilbrigðisþjónustunnar samhæfing á verklagi við móttöku þolenda heimilisofbeldis en verkefnið kallast „Hof“.
Jóhanna Erla Guðjónsdóttir, félagsráðgjafi á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi veit allt um nýja verkefnið.
„Og það sem við erum líka að gera er einmitt að koma í veg fyrir að áverkar stigmagnist og við erum að reyna að koma í veg fyrir endurteknar komur á bráðamóttökuna og við erum fyrst og fremst að reyna að stíga inn í ferlið, sem fyrst. Nýja verkefnið hefur reynst mjög vel en það átti þetta að vera tilraunaverkefni til tveggja ára en eftir eitt ár kom í ljós að þetta var mjög þarft og var að sýna góða svörun þannig að það var gert að föstu verkefni og nú er þetta fast í fjárframlögum,“ segir Jóhanna Erla.

Og nú þegar hafa komið upp 150 ofbeldismál frá því að verkefnið hófst á Landsspítalanum.
„Ég held að þetta sé bara toppurinn á ísjakanum þessi 150 mál,“ segir Jóhanna Erla og bætir við.
„Þetta snýst um að þú verðir fyrir ofbeldi af hálfu einstaklings, sem er þér nátengdur eða náinn hvort sem það er núverandi maki, fyrrverandi maki, barnið þitt, foreldrið þitt, hvernig sem er, það er skilgreint, sem heimilisofbeldi.“
Erum við að tala um gróft ofbeldi eða?
„Við erum að tala um allt ofbeldi, allar tegundir ofbeldis. Við erum að tala um andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt, þú getur alltaf leitað til okkar. Það er töff að vinna í þessu umhverfi en mjög gefandi“, segir Jóhanna Erla.

