Við ræðum við seðlabankastjóra í kvöldfréttum og hittum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífins í beinni útsendingu, sem óttast að óbreyttir stýrivextir grafi undan samstöðunni sem náðst hefur með kjarasamningum.
Þá fjöllum við um niðurstöður glænýrrar könnunar Maskínu á fylgi forsetaframbjóðendanna, einni þeirri fyrstu sem gerð er eftir kappræður Ríkisútvarpsins síðastliðinn föstudag. Heimir Már kemur í sett og fer yfir niðurstöðurnar.
Kynningarfundur um lagareldisfrumvarpið hefði getað verið tölvupóstur að mati framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga. Hvorki hafi verið boðið upp á spurningar né samtal.
Við köfum einnig í hitamál meðal sundlaugargesta á Álftanesi. Sjónvarpsskjár sem kominn er upp við bakka Álftaneslaugar hefur orðið að miklu þrætuepli. Margir harma að síðasta skjálausa vígið, sundlaugin, sé fallið - á meðan yngri laugargestir kalla eftir því að kveikt sé oftar á skjánum. Þá flytur Kristján Már okkur nýjustu fréttir af þjóðarhöll sem nú rís í Færeyjum.
Í sportpakkanum hittir Valur Páll hlaupakonuna Elísu Kristinsdóttur, sem hafnaði í öðru sæti í bakgarðshlaupinu um nýliðna helgi. Og í Íslandi í dag ræðir Sindri Sindrason við Berghildi Erlu Bernharðsdóttur um Vistheimilin, áhrifamikla þætti hennar sem nú eru sýndir á Stöð 2.