Seðlabanki Íslands tilkynnir vaxtaákvörðun sína á morgun. Verðbólga hefur hjaðnað þó nokkuð síðustu mánuði og er nú sex prósent en var sex komma átta prósentustig í síðasta mánuði. Þetta er þó enn langt frá verðbólguviðmiði Seðlabankans sem er tvö og hálft prósent. Bankarnir spá því að ákveðið verði að halda óbreyttum vöxtum eða 9.25 prósentum. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bindur hins vegar vonir við að vextir lækki á morgun.
„Það er augljóst að við vonumst til þess að með hjaðnandi verðbólgu skapist skilyrði fyrir vaxtalækkun. Við erum með mjög hátt vaxtastig í landinu í dag. Heimilin eru t.d. í óverðtryggðum húsnæðislánum að greiða ellefu prósent vexti sem eru tryggðir með fyrsta veðrétti í fasteign. Þetta eru mjög háir vextir meðan verðbólgan er aðeins að gefa eftir,“ segir Bjarni.
Varar við því að verðbólga gefi of mikið eftir
Bjarni varar við því að verðbólga hjaðni of mikið.
„Við þurfum að gæta okkar á því að hún fari ekki alla leið niður vegna þess að það er mjög mikill sláttur í íslenska hagkerfinu og atvinnustigið er hátt. Þá erum við auðvitað að styðja við allt það sem getur dregið úr verðbólgu í landinu til þess að verðbólga minnki. En Seðlabankinn verður að meta það hvort skilyrði séu fyrir vaxtalækkun,“ segir hann.