Innlent

Halla Hrund líka vin­sæll annar kostur

Árni Sæberg skrifar
Halla Hrund Logadóttir mælist vel í skoðanakönnunum.
Halla Hrund Logadóttir mælist vel í skoðanakönnunum. Vísir/Vilhelm

Í nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands voru þátttakendur einnig spurðir að því hvaða forsetaframbjóðanda þeir gætu hugsað sér að kjósa, annan en þeir ætla að kjósa. Halla Hrund Logadóttir virðist vinsæll annar kostur.

Jón Gnarr mælist með umtalsvert minna fylgi í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem kom út í gær, en í öðrum könnunum til þessa. Katrín Jakobsdóttir trónir á toppnum í könnuninni en ekki er þó marktækur munur á henni og Höllu Hrund Logadóttur.

Rétt tæp þrjátíu prósent svarenda í könnuninni sögðust styðja Katrínu í forsetakosningunum en 27,6 prósent Höllu Hrund. Baldur Þórhallsson mældist með 23,6 prósent fylgi í þriðja sæti. Jón mældist aðeins með 7,4 prósent.

Á vef Félagsvísindastofnunar segir að enn sé mánuður til kosninga og því geti sé margt sem getur breyst þegar talið er úr kjörkössunum. Því hafi þátttakendur í könnuninni einnig verið spurðir hvaða aðra frambjóðendur þeir gætu hugsað sér að kjósa.

Í meðfylgjandi myndum frá Félagsvísindastofnun má sjá þær niðurstöður fyrir þá fjóra frambjóðendur sem fengu mest fylgi í könnuninni.

Halla Hrund fengi fylgi Katrínar

Á myndinni má sjá að hátt hlutfall þeirra sem hyggjast kjósa Katrínu Jakobsdóttur gætu einnig hugsað sér að velja Höllu Hrund, Baldur eða Höllu Tómasdóttur. Því má sjá að 45 prósent þeirra sem hyggjast kjósa Katrínu gætu einnig hugsað sér að kjósa Höllu Hrund og 33 prósent Baldur.

Á meðal fylgismanna Höllu Hrundar eru 35 prósent sem geta einnig hugsað sér að kjósa Baldur og 25 prósent sem geta hugsað sér að kjósa Katrínu.

Tæpur helmingur þeirra sem hyggjast kjósa Baldur geta einnig hugsað sér að kjósa Höllu Hrund.

Á meðal þeirra sem hyggjast kjósa Jón Gnarr er rétt tæpur helmingur sem gæti hugsað sér að kjósa Baldur Þórahallsson og 38 prósent Höllu Hrund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×