Kvörtun þeirra til dómstólsins laut að annars vegar framkvæmd talningar í kjördæminu og hins vegar að því að þeir hafi ekki haft skilvirka leið til að koma kvörtunum sínum áleiðis. Íslenska ríkinu gert að greiða þeim báðum um 13 þúsund evrur í bætur sem samsvarar um tveimur milljónum íslenskra króna.
„Niðurstaðan er auðvitað ánægjuleg. Í henni felst viðurkenning á málstað umbjóðenda minna. En hún er á sama tíma alveg agaleg, að slíkur dómur gangi yfir kosningar á Íslandi og eftirmála þeirra. Að brotið hafi verið á rétti borgaranna til frjálsra kosninga,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður þeirra Guðmundar og Magnúsar.
Sigurður segir að dómstóllinn komist að því að brotið hafi verið gegn þriðju grein fyrsta viðauka sáttmálans um réttinn til frjálsra kosninga og svo þrettándu grein Mannréttindasáttmála Evrópu um skilvirk réttarúrræði.
„Athugun dómstólsins beinist auðvitað fyrst og fremst að eftirmálum talninganna. Hvernig Alþingi greiddi úr því. Þeirri staðreynd að þar voru alþingismennirnir að ráða örlögum sínum sjálfir.“
Hann segir að þrátt fyrir þessa niðurstöðu sé úrskurður dómstólsins ekki einn bölmóður.
„Mannréttindadómstóllinn fer þarna yfir störf kjörbréfanefndar og kemst að því að hún hafi verið sanngjörn og hlutlæg í sinni vinnu. En eðli málsins samkvæmt er atkvæðagreiðsla á Alþingi, málsmeðferð Alþingismanna á eigin kjöri, hún getur ekki verið annað en pólitísk og á því í raun fellur málið.“
Studdu eigið kjör
Hann segir að í niðurstöðu dómsins sé einnig vikið að mikilvægi ásýndar og þeirri staðreynd að atkvæði sumra þingmanna hafi verið til stuðnings kjöri þeirra sjálfra.
„Þarna reynir á stjórnarskrána okkar, skort á reglusetningu og annað slíkt,“ segir Sigurður og að í ljósi þessa sé augljóst að betra hefði verið að hlustað hefði verið á hans umbjóðendur allt frá upphafi. Þeir hafi ítrekað, allt frá upphafi, bent á skort á regluverki og að það þyrfti að setja það.
„Það sem þarf auðvitað að gera er að breyta stjórnarskránni. Það er þessi vinna í gangi, sem hefur verið í gangi hjá forsætisráðherra, tillögur og greinargerðir, um að færa þetta úrskurðarvald frá Alþingi og yfir til dómstólanna,“ segir hann og að þessi vinna sé komin ansi langt.
Það sé fyrsta skrefið til að kanna það til þrautar hvort að það sé skynsamlegasta leiðin upp úr þessu.
„Stjórnarskránni verður ekki breytt þannig gild sé í næstu Alþingiskosningum. En það er þegar búið að breyta kosningalöggjöfinni eftir að þetta mál kom upp. Kannski þarf að gera það enn frekar þannig að málsmeðferðin verði skýrari, hlutlausari og tryggi borgurum þessi skilvirku réttarúrræði. En vissulega er það þannig að það þarf að samþykkja breytingar á stjórnarskrá fyrir og eftir kosningar,“ segir Sigurður Örn og að boltinn sé því nú hjá Alþingi.
Hvað varðar umbjóðendur hans segir hann þá taka tíma núna til að skoða sína réttarstöðu en segir að málið hafi frá upphafi verið þeim ákveðið prinsippmál. „Þetta varðar lýðræðið í landinu okkar, réttinn til frjálsra kosninga og þeir sem bjóða sig fram og að þeir sem kjósa hafi fullvissu um að það sé vel að verki staðið.“
Talning í kosningum 2021
Málinu var vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu af þeim Magnúsi Davíð Norðdahl og Guðmundi Gunnarssyni. Kvörtun þeirra snýr að framkvæmd talningar í kjölfar Alþingiskosninga þann 25. september árið 2021 og að þeir hafi ekki haft skilvirka leið til þess að koma áleiðis kvörtunum sínum hvað það varðar.
Báðir voru þeir í framboði til Alþingis þegar kosningar fóru fram árið 2021 og gerðu athugasemdir við talningu í Norðvesturkjördæmi þar sem þeir báðir fóru fram. Telja þurfti aftur í kjördæmi eftir að kom í ljós að kjörkassar hefðu ekki verið innsiglaðir með réttum hætti. Endurtalningin hafði mjög mikil áhrif á úthlutun jöfnunarþingsæta um land allt. Guðmundur sem dæmi datt út af þingi en hann hafði verið inni á jöfnunarþingsæti. Það sama gilti ekki um Magnús en hann var aldrei inni samkvæmt niðurstöðu kosningarinnar. Við endurtalningu kom í ljós að atkvæði Viðreisnar höfðu verið oftalin um níu og Miðflokksins um fimm.
Í kjölfar endurtalningar var skipuð kjörbréfanefnd til að meta hvort talning og meðhöndlun kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hafi verið lögmæt. Meirihluti nefndarinnar lagði til að öll kjörbréf sem Landskjörstjórn gaf út í kjölfar kosninga yrðu samþykkt og samþykkti Alþingi síðar þá niðurstöðu.
Mál Magnúsar og Guðmundar snýr að þeirri stjórnskipulegu framkvæmd sem fór af stað í kjölfar rannsóknar kjörbréfanefndar á kosningum í Norðvesturkjördæmi og meðferð kjörbréfa þar. Samkvæmt stjórnarskránni sker Alþingi sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir.