Allir skjálftarnir voru undir einum að stærð og flestir á um tveggja til fjögurra kílómetra dýpi. Í frétt á vef Veðurstofunnar segir að smáskjálftahrinan sé líklega afleiðing spennubreytinga í jarðskorpunni vegna áframhaldandi landriss í Svartsengi.
Á mynd sem fylgir frétt Veðurstofunnar má sjá bæði staðsetningu skjálftanna og graf sem sýnir dýpt þeirra. Þar má sjá að nokkrir smáskjálftar mældust á svæðinu síðdegis í gær en eftir miðnætti í dag hefur ekki mælst nein skjálftavirkni.

Í uppfærslu Veðurstofunnar kemur jafnframt fram að eldgosið, sem hófst þann 16. mars, sé enn stöðugt og að landris haldi einnig áfram á svipuðum hraða síðan það hófst í byrjun apríl. Útgefið hættumat fyrir svæðið gildir til morgundagsins. Enn er hætta á gasmengun og er fólki bent á að fylgjast vel með spá. Hægt er að kynna sér gasdreifingarspá hér.