Hann segir árásir af þessu tagi auka áhættuna á alvarlegu kjarnorkuslysi verulega.
Grossi birti yfirlýsingu á X/Twitter þar sem hann staðfesti að þrjú skot hefðu hæft verið. Um væri að ræða fyrstu árásina af þessu tagi frá því í nóvember árið 2022, þegar hann gaf út leiðbeiningar um það hvernig aðilar ættu að hegða sér til að forða kjarnorkuslysi.
Rússneskir embættismenn við kjarnorkuverið saka Úkraínumenn um að hafa gert drónaárás á það í gær en öryggisyfirvöld í Úkraínu vísa ásökununum til föðurhúsanna. Þau segja árásir Rússa á verið löngum hafa verið þátt í glæpsamlegum aðgerðum innrásarhersins.
Today, for the first time since Nov 2022 & after I set out 5 basic principles to avoid a serious nuclear accident w/ radiological consequences,@IAEAorg s #ISAMZ confirmed that at least 3 direct hits against ZNPP main reactor containment structures took place. This cannot happen.
— Rafael MarianoGrossi (@rafaelmgrossi) April 7, 2024
Stjórnendur kjarnorkuversins segja engar alvarlegar skemmdir hafa orðið né heldur slys á mönnum. Rússneska kjarnorkumálastofnunin Rosatom sagði þrjá hins vegar hafa særst í „fordæmalausum“ drónaárásum á verið.
Mennirnir voru sagðir hafa slasast þegar ráðist var á svæði nærri mötuneyti kjarnorkuversins.
Zaporizhzhia-kjarnorkuverið er það stærsta í Evrópu og áhyggjur hafa verið uppi frá því að Rússar tóku verið á sitt vald skömmu eftir innrás þeirra í Úkraínu. Slökkt var á kjarnakljúfunum en verið þarfnast orku og mannafla til að viðhalda kælikerfi versins og öðrum öryggiskerfum.