„Það er auðvitað óvenjulegt að sitjandi forsætisráðherra gefi kost á sér í framboð forseta og þá verður maður bara að taka því að þá eru ákveðnar flækjur sem fylgja því. Það lá algjörlega ljóst fyrir þegar ég tók mína ákvörðun. Ég bara tek á þeim og það þarf í sjálfu sér ekki að vera neitt vandamál,“ segir hún í samtali við fréttastofu á Bessastöðum.
Hún hafi ekki þegar sagt af sér þingmennskunni en muni tilkynna afsögn sína með bréfi til forseta Alþingis á morgun. Sú óvenjulega staða gæti því komið upp á teninginn, hafi stjórnarflokkarnir ekki komist að niðurstöðu varðandi arftaka hennar fyrir þann tíma, að sitjandi forsætisráðherra eigi ekki sæti á þingi.
„Nú liggur þessi staða fyrir og þá liggur auðvitað beinast við að við bíðum eftir því hver niðurstaðan verður hjá þeim þremur flokkum sem nú ræða saman um framhaldið,“ segir Katrín.
Flækjurnar lágu fyrir
Hún segist þó hafa leitað upplýsinga um stöðu mála og segist vera bjartsýn á að niðurstaða liggi fyrir innan skamms. „Ég hef fulla trú á því.“
„Ég er að sjálfsögðu að gefa kost á mér en ég segi það líka og ítreka það að það er auðvitað fólkið í landinu sem velur forseta. Þeirra val og þeirra niðurstaða er alltaf sú rétta. Fólk hefur kost á því að velja mig í þetta embætti og að sjálfsögðu geri ég það af mjög heilum hug og mun beita mér í baráttunni framundan af mjög miklum krafti,“ segir Katrín.
„Enginn ómissandi“
Katrín segist ekki hafa hugmynd um hver arftaki hennar verði og að það hafi ekkert verið rætt innan ríkisstjórnarinnar. Það sé þannig að þegar tekin er ákvörðun um að segja skilið við stjórnmálin veðri maður að standa við þá ákvörðun. Nú séu þessi mál í annarra höndum.
„Ég er alveg viss um það að ég er ekki ómissandi hvorki á Alþingi Íslendinga né í íslenskum stjórnmálum. Ég hef lagt mig alla fram í því verkefni að leiða þessa ríkisstjórn undanfarin sex og hálft ár og hef verið það hundrað prósent en eins og ég segi er enginn ómissandi í þessu og ekki ég heldur,“ segir Katrín.