„Við ætluðum að reyna að vinna þennan leik, það er svekkjandi að tapa. Við lögðum allt sem við áttum í þetta en það gekk bara ekki upp í kvöld. Aðeins of mikið af mistökum og Dani var aðeins of góð, því fór sem fór“ sagði Arnar fljótlega eftir leik.
Þrátt fyrir tap í kvöld tekur hann margt jákvætt út úr leiknum, og tímabilinu öllu hjá nýliðum deildarinnar.
„Jájá, þetta er bara búið að vera jákvætt heilt yfir í vetur. Þær voru bara sleipari á svellinu undir lokin í kvöld, við gerðum of mikið af mistökum til að geta unnið en margt mjög jákvætt að sjálfsögðu.“
Þjálfarinn sagðist fullur tilhlökkunar að leiða liðin inn í úrslitakeppni. Þar mætir Stjarnan Haukum.
„Bara tilhlökkun, gaman fyrir þessar stelpur sem hafa bara spilað tvær seríur á ævinni, í fyrstu deildinni í fyrra. Nú fá þær að prófa sig á stóra sviðinu og okkur hlakkar mikið til.“
Miði er möguleiki og Stjarnan er á leið í úrslitakeppni, en Arnar telur Stjörnuna ekki eiga mikinn möguleika á Íslandsmeistaratitli í vor.
„Titli? Nei. Ég held að Keflavík verði Íslandsmeistari. Ég held að þær séu langbestar, en við ætlum að reyna að komast eins langt og við getum.
Byrja á því að komast áfram í aðra umferð. Ég held að þetta lið sé á þeirri vegferð en Íslandsmeistaratitill komi ekki á næstu mánuðum en vonandi í framtíðinni.“
Það var tilkynnt fyrir rúmri viku síðan að Arnar myndi láta af störfum hjá bæði karla- og kvennaliði Stjörnunnar að þessu tímabili loknu. Hann segir búið að finna eftirmann en vildi ekki ljóstra upp hver það væri.
„Já [það er ákveðið], en það eru einhverjir aðrir sem sjá um að tilkynna það en ég“ sagði Arnar óræður að lokum.