Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar frá 18. - 19. mars sem birt var í dag. Þar kemur fram að allir nefndarmenn, nema einn, hafi greitt atkvæði með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að halda vöxtum bankans óbreyttum, en meginvextir bankans standa í 9,25 prósentum.
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögunni. Hann vildi lækka vexti um 0,25 prósentur. Það vildi hann líka gera á fundi nefndarinnar fyrir þar síðustu vaxtaákvörðun, einn nefndarmanna.
Áhættan meiri af of litlu taumhaldi en of miklu
Í fundargerðinni segir að nefndarmenn hafi rætt að verðbólga væri enn mikil og verðbólguvæntingar háar. Þótt hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar undanfarið væru vísbendingar um að nokkur kraftur væri enn fyrir hendi.
Fram hafi komið að ráðningaráform fyrirtækja hefðu aukist aftur, hlutfall fyrirtækja sem búa við skort á starfsfólki væri enn hátt og áraun á framleiðsluþætti fyrirtækja mikil. Spenna á vinnumarkaði væri því áfram nokkur og atvinnuleysi lítið.
Umsvif á húsnæðismarkaði væru jafnframt enn mikil og íbúðaverð hefði hækkað undanfarið. Einnig hafi verið bent á að nokkrar líkur væru á að hagvöxtur í fyrra væri vanmetinn í nýbirtum tölum miðað við töluverða endurskoðun fyrri talna. Því væri mikilvægt að vera varfærin í túlkun á nýjustu gögnum.
Fram hafi komið í umræðunni að þótt það væri jákvætt að langtímakjarasamningur hefði verið undirritaður þá væri nokkur hætta á að fyrirtæki fleyttu launahækkunum að miklu leyti út í verðlag líkt og gerðist í byrjun síðasta árs. Einnig ætti eftir að koma í ljós hvernig aðgerðir í ríkisfjármálum yrðu fjármagnaðar, áhrif þeirra á eftirspurn og hvort útlit væri fyrir að aðhald í ríkisfjármálum myndi minnka.
Bent hafi verið á að enn væri þörf á að hafa háa raunvexti svo að verðbólga yrði ekki þrálát um langt skeið. Áhættan af því að taumhald peningastefnunnar væri of laust til að ná verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma væri enn meiri en hættan af því að taumhaldið sé of þétt.
Verðbólga þurfi augljóslega að vera á niðurleið
Nefndarmenn hafi talað um að skýrar vísbendingar þyrftu að koma fram um að verðbólga væri augljóslega á niðurleið til að hægt væri að lækka vexti og mikilvægt að vaxtalækkun hæfist á trúverðugum tímapunkti.
Fram hafi komið í umræðunni að hratt hefði dregið úr vexti einkaneyslu og efnahagsumsvifa undanfarið enda hefðu raunvextir hækkað töluvert. Einnig hafi verið nefnt að endurskoðun á hagvexti síðustu ára gæti bent til þess að það hefði dregið enn hraðar úr kraftinum í þjóðarbúskapnum undanfarið en ella þar sem breytingin væri frá hærra stigi.
Óvissa hefði minnkað milli funda og verðbólguvæntingar þokast niður samkvæmt nýlegum könnunum. Fram hafi komið að einnig þyrfti að huga að því hver áhrif aðhaldssamrar peningastefnu yrðu til lengri tíma.
Óvissan minnkað og raunvextir þrengt að heimilum
Með hliðsjón af umræðunni hafi seðlabankastjóri lagt til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, það er vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 9,25 prósent, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 9 prósent, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 10 prósent og daglánavextir 11 prósent.
Ásgeir Jónsson, Rannveig Sigurðardóttir, Herdís Steingrímsdóttir og Ásgerður Ósk Pétursdóttir hafi greitt atkvæði með tillögunni.
Gunnar Jakobsson hafi greitt atkvæði gegn tillögunni og viljað lækka vexti um 0,25 prósentur. Hann hafi talið að staðan væri að mestu leyti svipuð og á síðasta fundi en að óvissan hefði minnkað vegna undirskriftar stefnumarkandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Þá hefðu raunvextir áfram hækkað hratt og þrengt frekar að heimilum og atvinnulífi. Einnig ættu áhrif fyrri vaxtahækkana eftir að koma fram. Í ljósi stöðunnar og þeirra gagna sem lægju fyrir nefndinni væri rétt að hefja vaxtalækkunarferlið í smáum skrefum.
Að mati nefndarinnar myndi mótun peningastefnunnar á næstunni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.