Íslenski boltinn

Tjallar héldu uppi stuðinu á Hlíðar­enda: „Al­veg trylltir“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valsarinn Sindri Rafn Sindrason segir frá kostuglegri reynslu af leik Vals og ÍA í gær hvar Gylfi Þór þreytti frumraun sína.
Valsarinn Sindri Rafn Sindrason segir frá kostuglegri reynslu af leik Vals og ÍA í gær hvar Gylfi Þór þreytti frumraun sína. Samsett/Vísir/Hulda/aðsend

Fimm Bretar vöktu mikla kátínu á meðal áhorfenda á N1-vellinum við Hlíðarenda í gær þegar Valur mætti ÍA í undanúrslitum Lengjubikarsins. Þeir héldu uppi stemningunni á vellinum og mátti vel heyra í þeim í sjónvarpsútsendingu frá leiknum.

Köll og söngvar heyrðust á vellinum í gær, sem er misalgengt á Hlíðarenda, hvað þá á undirbúningstímabili.

„Þegar þeir settust fyrir framan okkur í byrjun leiks og við heyrðum í þeim lætin hugsaði ég: Guð minn góður hvað ég nenni þessu ekki,“ segir Sindri Rafn Sindrason, Valsari og formaður KH, sem var í stúkunni í gær.

„Það voru liðnar þrjár mínútur og þeir voru að öskra úr sér lungun.“

Sindri Rafn sagði sögu af bresku félögunum á samfélagsmiðlinum X í gær en þráðinn má nálgast að ofan. Aðkomumennirnir virtust spenntir fyrir því að sjá Gylfa Sigurðsson og kölluðu ítrekað eftir því að fá hann inn á völlinn. Þá áttuðu þeir sig illa á því af hverju stemningin væri svo lítil í kringum undanúrslitaleik í bikarkeppni.

Sindri er oft sagður titlaóður. Hér er hann á góðri stund í Valsheimilinu.Aðsend

„Svo voru þeir uppteknir af því að þetta væru undanúrslit í bikarnum. Það var smá snúið að útskýra fyrir þeim hversu lágt skrifaður Lengjubikarinn er, þó þetta sé sannarlega bikar,“

„Þetta var kostulegt dæmi,“ segir Sindri en þeir félagar höfðu leitað lifandi ljósi að miðum á völlinn í aðdragandanum, bara til að komast að því að það væri frítt inn þegar þeir mættu í hálftóma stúkuna á Hlíðarenda.

„Þegar brotið var á Valsmanni höfðu þeir gaman að því að rísa allir úr sætum og öskra "Oi ref!" og kölluðu svo mikið á línuvörðinn "Oi, line-o!"

„Það var eins og þetta væri Millwall á útivelli. En raunverulega Lengjubikarinn á Hlíðarenda, með svona 60 manns í stúkunni,“ segir Sindri léttur.

Klippa: FC Valur köll

„Þeir spurðu hver væru svona algeng Valsköll eða -söngvar á vellinum. Það var góð spurning. Ég sagði við þá að það einfalda væri að kalla Valur í sífellu. Þá tóku þeir upp FC Valur. Það var mikil stemning hjá krökkunum og þeim, þeir reyndu að fá þá fullorðnu með sér en það gekk hægt.“

FC Valur komið til að vera

„FC VALUR, er eitthvað sem verður chantað í sumar held ég. Krakkarnir voru farnir að taka það upp í gær,“

„Ég myndi segja að þetta hafi sett met í stemningu á undirbúningstímabili, og nánast almennt. Þetta var eins og leikur í september þar sem allt er undir. En í rauninni voru bara fimm Tjallar sem voru alveg trylltir og skildu ekkert af hverju það var ekki meiri stemning á undanúrslitaleik í bikar,“ segir Sindri.

Þeir félagar kölluðu einnig reglulega „líva!“ sem þeir öpuðu upp eftir barnahópnum á vellinum. Sindri var snöggur að útskýra fyrir þeim að þarna væri verið að kalla „dýfa!“. Varð framburður þeirra í kjölfarið óaðfinnanlegur í hvert sinn sem Skagamaður féll til jarðar. 

Þeir fóru þá ekki tómhentir af vellinum en Sindri aðstoðaði þá við að finna trefla í liðsversluninni, sem var þó ekki opin í kringum leikinn.

Fer hringveginn á húsbíl

Liam hefur farið á fótboltaleiki víða en kom þó ekki til landsins til að sjá boltann.Aðsend

Einn Bretanna fimm sem voru á leiknum í gær er Liam Eagles sem kom þó ekki til landsins í þeim tilgangi að sjá fótbolta. Það var bónus.

Hann er ótengdur hinum fjórum sem eru hér saman í skemmtiferð en sat með þeim á vellinum.

„Ég lenti í gær og reyni yfirleitt að sjá fótbolta ef ég get. Þetta er 21. landið þar sem ég sé fótboltaleik,“ segir Liam við Vísi.

Hann tekur þó litla ábyrgð á látunum, fjórmenningarnir hinir eigi heiðurinn.

„Þeir félagar eiga heiður skilinn af stemningunni frekar en ég,“ segir Liam léttur.

Hann er mikill ferðamaður og hóf í dag hringferð um landið á húsbíl.

„Ég er hjá Þórufossi sem stendur og stefni næst að Glym. Svo verður ferðin norður á bóginn og ég mun gista á Akureyri um helgina og finna skemmtilega hluti á leiðinni. Hringvegurinn verður svo keyrður áfram áður en ég flýg heim eftir helgi,“ segir Liam.

Liam Eagles við Þórufoss en hann hefur einnig komið að Skógarfossi og stefnir næst að Glym.Aðsend

Tengdar fréttir

Sjáðu vítakeppnina og mörkin í fyrsta leik Gylfa með Val

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Val urðu að sætta sig við tap í fyrsta keppnisleik hans með liðinu. ÍA vann sigur á Val í vítakeppni og tryggði sér sæti í úrslitaleik Lengjubikars karla í fótbolta. Nú má sjá mörkin og vítaspynukeppnina úr leiknum inn á Vísi.

„Þessir tveir mánuðir voru gríðarlega erfiðir“

Gylfi Þór Sigurðsson þreytti frumraun sína með Val gegn ÍA í Lengjubikarnum í gær. Síðustu mánuðir hafa verið honum strembnir og þá verður skrýtið fyrir hann að vera ekki með landsliðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×