Arnór, sem er 22 ára skytta, er lykilmaður í liði ÍBV og mun klára leiktíðina með liðinu sem á dögunum vann silfur í Powerade-bikarnum.
Arnór segir í viðtali á heimasíðu Fredericia að Guðmundur, sem stýrði Elliða bróður hans í landsliðinu, hafi verið lykilþáttur í ákvörðuninni um að semja við félagið.
„Þetta eru spennandi skipti fyrir mig. Guðmundur er fær þjálfari og liðið hefur þróast í mjög góða átt síðustu tvær leiktíðir,“ segir Arnór en Fredericia er í næstefsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
Dreymir um að komast í landsliðið
„Danska deildin er betri en sú íslenska og ég vonast til þess að bæta mig enn meira. Það verður líka gaman að spila í Evrópudeildinni eða Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Mig dreymir líka um að spila í landsliðinu með bróður mínum og þetta skref hjálpar mér í þá átt. Ég hlakka til að koma til FHK og ég ætla að leggja allt í sölurnar til að vinna titla með félaginu,“ segir Arnór.
Línumaður landsliðsins, Elliði Snær, er eldri bróðir hans og Arnór hefur einnig leikið með yngri bróður sínum, Ívari Bessa, hjá ÍBV.
Auk þess að spila undir stjórn Íslendings mun Arnór væntanlega verða með íslenskan liðsfélaga hjá Fredericia því landsliðsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson er leikmaður liðsins.
Samningur Arnórs við danska félagið gildir til þriggja ára.