Innlent

Grunaður um inn­flutning á tugum kílóa fíkni­efna

Árni Sæberg skrifar
Grímur Grímsson er yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar. Stefán Ingimar er grunaður um innflutning fíkniefna.
Grímur Grímsson er yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar. Stefán Ingimar er grunaður um innflutning fíkniefna. Vísir

Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson, maður sem er eftirlýstur á vef alþjóðalögreglunnar Interpol að beiðni lögreglu á Íslandi, er grunaður um innflutning á tugum kílóa fíkniefna í apríl á síðasta ári.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Greint var frá því í gær að lýst hefði verið eftir Stefáni Ingimari á vef Interpol að beiðni lögreglunnar hér á landi. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin og hefur meðal annars hlotið átta ára fangelsisdóm fyrir fíkniefnainnflutning.

Grímur segir að hann sé grunaður um aðild að máli sem kom upp í apríl á síðasta ári og ekki hefur verið fjallað um í fjölmiðlum áður. Málið sé enn til rannsóknar og því vilji lögregla ná tali af Stefáni Ingimari.

Hann sé grunaður um innflutning töluvarðs magns fíkniefna, nokkurra tuga kílóa. Fleiri séu grunaðir um aðkomu að innflutningnum.

Hafa hugmyndir um hvar hann gæti verið

Grímur segist ekki geta tjáð sig um það hvernig gengur að afla upplýsinga um Stefán Ingimar eftir að athygli var vakin á eftirlýsingunni í gær. Nokkrir dagar eru síðan hún birtist á vef Interpol.

Þá segir hann að lögregla hafi óljósar hugmyndir um það hvar í heiminum Stefán Ingimar gæti verið staddur. Loks segir hann að hann sé ekki talinn hættulegur.

Sagt tengjast amfetamíni í Norrænu

Í frétt Ríkisútvarpsins um málið segir að málið tengist innflutningi amfetamíns með Norrænu í apríl í fyrra. Einn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins á sínum tíma en síðar sleppt úr haldi. Þetta hefur Rúv eftir ónefndum heimildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×