Á vef Ferðamálastofu kemur fram að fjölgunin hafi verið um fjórtán prósent á milli ára í fjölda ferðamanna. Í Hagsjá Landsbankans kemur hins vegar fram að erlend kortavelta hafi aðeins aukist um 3,1 prósent, á föstu gengi. Því sé ljóst að þeir ferðamenn sem nú komi virðast eyða minna en þeir sem komu fyrir ári síðan.
„Síðustu þrjá mánuði virðast ferðamenn vera að eyða minna í ferðum sínum hér en áður. Í desember og janúar síðastliðnum dróst kortavelta saman á milli ára á föstu gengi og þó ferðamönnum hafi fjölgað um 14% á milli ára í febrúarmánuði, jókst erlend kortavelta á föstu gengi aðeins um 3,1%. Neysla á hvern ferðamann heldur því áfram að vera töluvert minni nú en fyrir ári.
Gistinóttum fækkaði um 10% á milli ára í janúar
Nýjustu tölur um skráðar gistinætur erlendra ferðamanna eru fyrir janúar. Skráðum gistinóttum fækkaði um rúmlega 10% á milli ára, þó ferðamönnum hafi fjölgað um rúmlega 8%. Það er því ljóst að hver ferðamaður sem hingað kemur gistir mun skemur en áður, sem helst í hendur við minni kortaveltu.
Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesskaga virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem hingað koma. Þó aðeins hafi hægst á taktinum í janúar hefur fjöldinn aftur náð sér á strik í febrúar. Breyting virðist þó hafa orðið á neyslumynstri ferðamanna þar sem þeir gista skemur og eyða þar af leiðandi minna. Hvort það sé afleiðing jarðhræringanna á Reykjanesinu er erfitt að segja. Einhverjir ferðamannastaðir þurftu að skerða þjónustu sína í nálægð við eldsumbrotin og það gæti mögulega skýrt stöðuna. Önnur skýring gæti verið sú að fólk sé búið að svala mesta ferðaþorstanum í kjölfar Covid-faraldursins. Sem fyrr er þó varasamt að draga of sterkar ályktanir út frá þróun örfárra mánaða.“