Þetta segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, í samtali við fréttastofu.
Krafist verður vikulangs gæsluvarðhalds yfir sex þeirra í dag. Grímur segir mestmegnis um karlmenn að ræða en að minnsta kosti ein kona er þeirra á meðal. Fólkið er ekki tengt fjölskylduböndum en tengist í gegnum viðskipti og rekstur.
Tugir mögulega þolendur mansals
Að sögn Gríms var um gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir að ræða en það sem standi uppi séu grunur um mansal, smygl á fólki til landsins, peningaþvætti og brot á útlendingalögum.
Grímur vildi ekki segja til um hversu mörg meint fórnarlömb mansals væru, en þau skiptu tugum. Rætt hefði verið við þau öll í gær. Ekki leikur grunur á að börn séu á meðal meintra þolenda, en barnavernd hafði aðkomu að aðgerðum í gær. Grímur segir að það hafi verið samkvæmt verklagi þar sem grunur lék á að börn væru á einhverjum af þeim heimilum þar sem farið var í húsleitir.
„Síðan er það þannig að það er í þessu máli, grunur um að starfsfólk á veitingastöðum þar sem við fórum í húsleitir, sé fórnarlömb manssals. Það getur verið fjölskyldufólk, þannig að barnaverndarnefnd þarf að koma að slíkum málum þegar verið er að bjóða viðunandi úrræði fyrir möguleg fórnarlömb mansals.“
Aðspurður um hvar fólkið, meintir þolendur, sé niðurkomið núna, segir Grímur að enginn hafi þurft á húsnæðisaðstoð að halda en unnið sé að því að útvega því viðeigandi úrræði.
Engin fíkniefni fundust
Grímur segir að eitt sakarefnanna sem legið hafi fyrir áður en ráðist var til aðgerðanna í gær hafi verið um hvort fíkniefni væru á þeim stöðum eða einhverskonar framleiðsla. Hann segir þó engin fíkniefni hafa verið handlögð við húsleitirnar í gær.
Aðspurður um hvort Davíð Viðarsson, sem meðal annars er eigandi Vy- þrifa og veitingastaðanna Wok-on og Pho Vietnam, sé á meðal þeirra handteknu, segist Grímur ekki muni gefa upp nöfn neinna einstaklinga. Mikilvægt sé að hafa í huga að engin hafi verið sakfelldur, aðeins sé um grun að ræða og rannsókn málsins sé á frumstigum.
Þá segir Grímur að aðgerðirnar í gær séu með stærri lögregluaðgerðum sem ráðist hafi verið í hér á landi, en tekur fram að sérstakur saksóknari hafi farið í ámóta stóra rannsókn í kringum hrunmálin. Málin séu af svipaðri stærðargráðu.
Undirbúningur aðgerðanna í gær hafi staðið yfir í langan tíma og rannsókn teygi sig nokkur ár aftur í tímann. Hátt í 100 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.