Fiskiskipin Ásgrímur Halldórsson SF og Polar Ammassak GR lögðu úr höfn síðastliðinn fimmtudag og leituðu undan Suðausturlandi.
„Skipin tvö fyrir austan komu til hafnar í gær og fyrradag og það var ekkert markvert að finna hjá þeim. Þessi litla loðnuganga á þeim slóðum var farin að sjást á Papagrunni og Lónsdýpi og því komin upp á grunnin allavega að einhverju leyti. Það varð ekkert vart við aðra göngu eins og vonast var eftir,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Þriðja fiskiskipið, Heimaey VE, sigldi á föstudag til leitar undan Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi. Þar voru vonir bundnar við að torfur gætu fundist norður af Húnaflóa, eins og gerðist í fyrra.

„Það hefur ekki orðið vart við neina loðnugöngu enn fyrir norðvestan land hjá Heimaey. Veðrið hefur verið að stríða þeim en engu að síður hafa þeir náð að vera við leit. Þeirra yfirferð mun halda áfram suður eftir næstu 2-3 daga sýnist okkur,“ segir Guðmundur.
En hvað um framhaldið? Verður reynt meira þennan veturinn?
„Við höfum ekki tekið ákvarðanir um framhaldið. Rannsóknaskip okkar eru að fara í togararallið á næstunni kringum landið, Árni á miðvikudaginn og verður vestan til og Bjarni á mánudaginn og verður norðan lands, og verða því að vakta miðin að einhverju leyti með bergmálsmælana á upptöku. Togararnir Gullver og Breki taka einnig þátt og verða fyrir austan og sunnan,“ svarar sviðsstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Hér má sjá siglingarferla skipanna.