Þrátt fyrir að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi frá og með deginum í dag leyft Grindvíkingum að dvelja og starfa í bænum voru ekki ýkja margir í bænum því sem stendur er ekkert neysluvatn. Útlit er fyrir að mun fleiri sæki bæinn heim næstu daga þegar köldu vatni verður komið á í bænum en það verður gert í áföngum og byrjað á hafnarsvæði bæjarins.
Stefán Kristjánsson, eigandi Einhamar Sefood, var mættur til vinnu í morgun til að undirbúa morgundaginn.
„Fyrsti bátur hjá okkur, hann landar hjá okkur í Grindavíkurhöfn í fyrramálið, það er mikið fagnaðarefni. Við byrjum þá að slægja strax á eftir og við erum með sjó úr borholu, tandurhreinan sjó af 36 metra dýpi og notum hann og svo kemur vatnið vonandi síðan á morgun og svo byrjum við að flaka á fimmtudaginn.“
Stefán á von á að taka á móti um þrjátíu manns til vinnu á morgun.
Þú ert ekkert smeykur sé ég?
„Nei, ég er ekkert smeykur. Alls ekki, hef aldrei verið,“ sagði Stefán og skellti upp úr.
Stefán ætlar raunar að gista heima í Grindavík í nótt og hann bauð fréttamanni og myndatökumanni inn fyrir.
Þetta er fyrsta nóttin í hversu langan tíma?
„Já, síðan síðasta rýming var. Ég var hérna þá nóttina og svo líka í gosinu þar áður.“
En þú ætlar að redda þér án þess að hafa neysluvatn. Ertu svona fyrirhyggjusamur?
„Já, já ég er með 20 lítra kút úti í bíl sem ég á eftir að bera inn. Svo ætla ég að steikja mér kótilettur í kvöld og horfa á körfubolta.“
Stefán gerir ráð fyrir að fleiri Grindvíkingar flytji aftur í bæinn þegar kalda vatnið kemst í lag.
„Já, við erum nokkrir Grindjánar sem sjáum ekkert annað en Grindavík.“