Frá þessu greinir Morgunblaðið og hefur eftir Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra HHÍ.
„Samhliða kaupunum á happdrættisvélunum er Happdrættið að endurnýja tölvukerfi [e. platform] en það er veigamikill liður í innleiðingu rafrænna spilakorta sem eru tengd farsímum. Spilakortin eru að norrænni fyrirmynd en markmiðið með þeim er að stuðla að heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun, sporna við spilavanda og verjast peningaþvætti,“ segir Bryndís.
„Þegar kortið verður komið í notkun geta viðskiptavinir meðal annars takmarkað þátttöku sína í happdrættisvélum eða útilokað sig frá spilun, tímabundið eða varanlega. Rafrænu spilakortin eru raunhæf og árangursrík leið til að stemma stigu við spilavanda og hafa gefið góða raun í löndunum í kringum okkur.“
Bryndís segir HHÍ hafa lagt töluverða fjárfestingu í innleiðingu spilakortanna, til að stuðla að „heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun“. Þau verða hluti af „Happinu“ nýju appi HHÍ.
Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) og fleiri hafa gagnrýnt Háskóla Íslands harðlega fyrir að reka spilakassa en Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, hefur sagt reksturinn afar mikilvægan og forsendu uppbyggingu innviða og viðhalds þeirra.
„Þetta er stórmál fyrir háskólann,” sagði hann í samtali við Vísi árið 2021, þegar starfsemin var kærð til lögreglu.