Handbolti

Melsungen aftur á sigurbraut eftir sigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Örn Jonsson skoraði fimm fyrir Melsungen.
Elvar Örn Jonsson skoraði fimm fyrir Melsungen. Andreas Gora/picture alliance via Getty Images

Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og félagar í MT Melsungen unnu góðan fimm marka sigur er liðið tók á móti Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum hans í Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 31-26.

Gestirnir í Bergischer byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fimm marka forystu í stöðunni 4-9. Heimamenn vöknuðu þá til lífsins og náðu að jafna metin með síðasta marki fyrri hálfleiks og staðan var 14-14 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Liðin skiptust svo á að skora framan af í síðari hálfleik og virtist lítið sem ekkert geta skilið þau að. Heimamenn tóku þó völdin þegar um tíu mínútur voru til leiksloka, skoruðu sex mörk i röð og breyttu stöðunni úr 23-23 í 29-23. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og heimamenn fögnuðu að lokum fimm marka sigri, 31-26.

Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen og Arnar Freyr bætti tveimur við, en liðið situr nú í fjórða sæti þýsku deildarinnar með 29 stig eftir 21 leik, sjö stigum á eftir toppliði Magdeburg. Arnór Þór komst ekki á blað fyrir Bergischer sem situr í 16. sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×