Fjölmiðlar fengu að fara í dag til Grindavíkur í fyrsta sinn í þrjár vikur. Síðasta ferð fyrir það var tveimur dögum eftir eldgos en síðan þá hefur bænum verið meira og minna haldið lokað. Helsta mál á dagskrá var verðmætabjörgun hjá íbúum bæjarins.
Sjá má frá heimsókn fréttamanns í bæinn í innslaginu hér fyrir neðan.
Brennisteinslykt í bænum
Fjölmiðlamenn fengu þó ekki að fylgjast með henni heldur var þeim ekið í langferðabíl á staði sem lögreglan hafði ákveðið fyrirfram. Staðirnir voru allir í jaðri bæjarins, fjarri öllum íbúum.
Það var þó nokkuð sláandi að sjá það sem búið var að ákveða að við mættum sjá.
Það var mikil brennisteinslykt í bænum og enn rauk upp úr hrauninu á nokkrum stöðum. Það var nokkuð bersýnilegt að hraunið var enn sjóðandi heitt, hitinn sást stíga upp.

Atvinnustarfsemi lömuð
Farið var bæði á iðnaðarsvæði bæjarins og hafnarsvæðið. Atvinnustarfsemi bæjarins hefur verið að miklu leyti lömuð síðan bærinn var rýmdur í nóvember og nýlega þurfti eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Grindavíkur, Stakkavík, að ráðast í hópuppsögn.
Grindavík hefur alla tíð verið mikið sjávarþorp. Höfnin var þó afar tómleg í dag, þar mátti einungis sjá einn gamlan trébát.

Einnig voru varnargarðarnir, sem stóðu fyrir sínu að miklu leyti þegar gos hófst fyrir þremur vikum síðan, skoðaðir. Þar mátt sjá hvar streymi hraunflæðisins var stýrt í burtu frá húsnæði líftæknifyrirtækisins ORF.
Þungt og mikil sorg
Með í fjölmiðlaferðinni voru sérsveitarmaður og upplýsingafulltrúi Almannavarna. Hún segir verðmætabjörgun hafa gengið vel.
„Ég hef heyrt í viðbragðsaðilum sem hafa verið í bænum þessa tvo daga. Það er enginn sem getur lýst því með orðum hvernig það er að vera hérna og þessi tilfinning að horfa á fólk í þessari stöðu. Við getum ekki ímyndað okkur þetta en viðbragðsaðilar hafa talað um að þetta hafi verið mjög þungt og mikil sorg,“ segir Hjördís.
