Hér erum við að tala um svínabúið í Laxárdal í Skeiða og Gnúpverjahreppi þar sem Björgvin Harðarson og fjölskylda eru með um tvö hundruð gyltur.
Eins og stundum gerist þá verða grísirnir móðurlausir eða að mamma þeirra getur ekki hugsað um þá af einhverjum ástæðum, þeir komast til dæmis ekki á spena hjá henni, en þá kemur að ömmugyltunum, sem taka grísina þá að sér líkt og um mömmu þeirra væri að ræða.
„Þessi gylta er svokölluð ömmugylta. Hún var sett hér hjá grísum, sem voru móðurlausir og þá kom þessi og mjólkar fyrir þá.
Oftast er þetta ekkert mál. Ef þær eru með einhver leiðindi þá gefur maður þeim bara smávegis af bjór og þá slaka þær alveg á. Þannig að það er mjög gott að eiga tvær til þrjár kippur inn í ísskáp til að gefa svínunum,” segir Björgvin hlæjandi.
Og bíddu, er þá ekkert mál fyrir hana að framleiða mjólk?
„Bjórinn hjálpar til og þær framleiða mjólk í rauninni á meðan grísirnir eru undir þeim,” bætir Björgvin við.

Björgvin segir að svo þetta gangi allt upp þá megi ömmugylturnar ekki vera gamlar ömmur.
„Þær mega vera svona tveggja ára í mesta lagi, hafa gotið kannski tvisvar sjálfar, þá geta þær verið ömmugyltur.”
En mælir Björgvin almennt með því að ömmur drekki svolítið af bjór?
„Ég hugsa að það sé bara fínt, allavega þessar ömmur,” segir hann og hlær enn meira.
